140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lýsi líka yfir ánægju með undirtektir hans varðandi frumvarp að breyttum þingsköpum sem ég hef gert hér að umtalsefni. Endanleg kveikjan að því var kannski þegar ég mætti til þingstarfa einn morguninn rétt fyrir kl. 7 og upplifði að 2. umr. stóð enn og ágætir félagar mínir, hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Björn Valur Gíslason, voru í þingsal að karpa um fjárlögin. Ég er ekki að segja þeim þetta til hnjóðs heldur tel ég að við eigum að skipuleggja vinnuna öðruvísi en gert er, að við eigum að tala um þetta mál sem er eitt af grundvallarmálum í þinginu með öðrum hætti en við höfum gert hingað til, bæði okkur til gangs og ekki síður þeim sem vilja fylgjast með umræðunni og verða fyrir áhrifum af því sem fjárlögin fela í sér. Ég held að vinnan yrði vandaðri fyrir alla.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, hvort það komi til greina að leysa sveitarfélögin undan einhverjum verkefnum, tel ég að það verði að fara fram mjög heiðarleg umræða um það. Það á ekki endilega bara við um lögbundin verkefni á sviði þessara grunnþátta félagsþjónustunnar eða fræðslumála, það eru skyldur lagðar á sveitarfélögin í ótal öðrum þáttum. Hvort hægt sé að seinka framkvæmdaáætlun eða einhverju því um líku sem leiðir af þeim lögum sem við höfum verið að setja verður að koma til skoðunar. Núverandi ástand eins og það birtist mér mun ekki leiða til annars en aukins halla í rekstri (Forseti hringir.) hins opinbera og þá á ég við hvort tveggja, sveitarsjóðina og ríkissjóðinn. Það gengur ekki upp.