140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið og þau viðbrögð sem hv. formaður fjárlaganefndar sýnir því að við leitum leiða til að breyta umræðunni um fjárlögin. Það er rétt að fyrirhugað er að gera breytingar á meðferð frumvarpsins hér í gegn, að Alþingi ákveði rammann að vori.

Það upplegg sem liggur fyrir getur alveg gagnast við slíka umræðu. Það gagnast líka að hausti og þetta er miklu frekar hugsað inn í umræðuna eins og hún er þegar maður er að tala um að brjóta þetta niður á málaflokka og fá nefndarformenn inn í þetta. Það form sem ég hef sett fram í þessi frumvarpsdrög gildir engu að síður fyrir þau stig sem við sjáum að eru að koma samkvæmt nýju þingsköpunum við meðferð fjárlaganna.

Það sem ég hefði helst viljað skoða frekar í þessu sambandi þegar við setjumst yfir þetta er að skoða þetta norska módel örlítið betur, hvort við getum tengt nefndirnar og vinnuna við útfærslu málaflokkanna eftir að fjárlagarammarnir eru samþykktir og ráðuneytin fara að fylla inn í. Þá fái menn kannski dálítið aðra sýn í þinginu á það hvernig framkvæmdarvaldið hefur raðað og unnið úr þeim römmum sem það fær skammtað.

Í mínum huga á fjárlaganefnd fyrst og fremst að vera í því hlutverki að leggja sem mest heildarmat á hluti. Einstakar fagnefndir eiga ekki að vera í því að taka afstöðu til einstakra fjárbeiðna. Allar slíkar ákvarðanir, eða meðferð mála, eiga að vera hjá fjárlaganefnd og ég tel að (Forseti hringir.) við séum að taka ákveðin skref í þeim efnum sem vonandi verða (Forseti hringir.) fleiri á næstu missirum.