140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er trú mín að þegar ákvæðið um rammafjárlög verður orðið virkt, sem er frá og með vori 2013, verði hér betri bragur á fjárlagaferlinu og Alþingi muni með miklu virkari hætti hafa áhrif á forgangsröðun í ríkisfjármálum. Nú eru þau áhrif mjög takmörkuð þó að við viljum láta annað í veðri vaka. Við stöndum yfirleitt frammi fyrir orðnum hlut sem er vel útfærður niður á órafjölda fjárlagaliða, þannig að í raun eru þær áherslubreytingar takmarkaðar sem fjárlaganefnd gerir, þó að að við reynum auðvitað eftir fremsta megni að hafa þau áhrif sem við teljum nauðsynleg.

Ég vil þá spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að jafnframt þurfi að tryggja að fjárlaganefnd hafi betri skilyrði til að fara út í slíka vinnu og hvort við séum með þær aðstæður (Forseti hringir.) í þinginu í dag til að við getum yfirleitt (Forseti hringir.) valdið þessu verkefni.