140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst tek ég undir með hv. þingmanni hvað varðar Klausturstofu og þakka honum veitt liðsinni í því góða máli enda var það byggt á forgangsröðun 20/20 eins og hann nefndi hér áðan. Hitt er um heiðurslistamannalaunin. Ég lagði það til fyrir allsherjar- og menntamálanefnd á föstudaginn að listinn yrði afgreiddur út að viðbættum Sigurði A. Magnússyni og meiri hlutinn samþykkti það. Við tókum ákvörðun um að leggja þetta til og bera undir atkvæði nefndarinnar þrátt fyrir að ekki hefðu allir fallist á að gera það, þó að hefðin segði til um að allir þyrftu að vera því sammála. Sem betur fer sátu hinir fulltrúarnir hjá og kölluðu eftir endurskoðun laganna sem við féllumst einnig á að fara nú þegar í og ný endurskoðuð lög kæmu fram á vorþingi, sem er bara hið besta mál, að endurskoða þessi lög. Ég fagna því mjög að sá áfangi skyldi náðst að þessum miklu listamanni, sem er núna 85 ára gamall, skyldi bætt á listann en honum hefur verið haldið af þessum lista síðustu tíu árin að minnsta kosti og aldrei náðst sátt um hann.

Hitt sem ég vildi nefna snýr að fangelsismálunum. Hv. þingmaður fór vel yfir að það skiptir miklu máli (Forseti hringir.) að ná góðri lausn á báða vegu og hún náðist þarna. Geta allir vel við það unað.