140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það að það var farið vel yfir mörg stór mál á milli umræðnanna og náðist mikilsverð niðurstaða, má nefna sjúkraflutninga, verulega tilslökun í heilbrigðismálum, niðurstöðu og sátt í fangelsismálum, Klausturstofu og svo eitt enn sem skiptir máli, það stóð til að skerða framlög til landshlutaskóganna frekar en orðið var en hætt var við það og fallið frá því, m.a. af því að nefndin hafði ekki tóm til að kalla fulltrúana fyrir og fara málefnalega í það. Það er engin leið að leggja til aukinn niðurskurð ofan á 3 prósentin flötu nema að fyrir liggi úttekt og málefnaleg umfjöllun um málið af því að það er mikilvægt verkefni sem skaffar mikla atvinnu um allt land og er mikill vísir til framtíðar.

Margt mjög gott ávannst á milli umræðnanna þannig að fjárlögin, þegar upp er staðið, eru mjög ásættanleg og gerðist margt sem bætti þau mjög alveg frá 1. umr. og núna þangað til við klárum umræðuna í dag og greiðum atkvæði á morgun.