140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:36]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi sóknargjöldin er mér ljóst að það eru margar tæknilegar hindranir í því að lækka þau eða afnema. Ég var einfaldlega að lýsa hér sjónarmiði mínu að sóknargjöld eins og gjöld í öðrum félagasamtökum á að innheimta af félagasamtökunum en ekki af skattfé borgaranna. Það er ef til vill langur vegur í að svo verði en ég vona ekki. Mér finnst ekki eðlilegt að ríkið innheimti gjöld af fólki til að útdeila til trúfélaga, mér finnst það bara óeðlilegt í nútímasamfélagi.

Varðandi fangelsismál er það rétt að það er ekki ákveðið hvernig þetta verður nákvæmlega fjármagnað en þó er að minnsta kosti komin niðurstaða í fyrstu skrefin í málinu sem er mikil framför frá því sem var í síðustu viku þar sem málið virðist algjörlega strand. Það hefði verið mikið ófremdarástand ef það hefði ekki komist lengra en það. Ég vona svo sannarlega að einkaframkvæmd verði ekki fyrir valinu vegna þess að við höfum einfaldlega slæma reynslu af því og fyrsti stafurinn í því fyrirbæri er (Forseti hringir.) fasteign.