140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður svarar því sem snýr að sóknargjöldunum, að rukka eigi hjá frjálsum félagasamtökum eins og hann orðaði það, en ég geri nú ekki mikinn greinarmun á því og langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji þá eðlilegt að við leggjum niður nefskattinn á Ríkisútvarpið, að það séu bara þeir sem vilja vera með Ríkisútvarpið sem borgi fyrir það, eins og gagnvart kirkjunni. Kirkjan er jú einn af hornsteinum þjóðfélagsins.

Það sem ég vildi draga fram í þessari spurningu til hv. þingmanns kemur við einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd. Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé mjög mikilvægt að vera ekki að fela alltaf efnahag ríkisins með því að fara í einhverjar framkvæmdir sem eru fram hjá og síðan fái menn það í hausinn seinna. En ef einhver hagkvæmni á að vera í því að fara í einkaframkvæmd byggist það fyrst og fremst í hönnuninni og byggingarkostnaðinum sem slíkum af því að við þekkjum sögu ríkisvaldsins í því, hún er yfirleitt ekki á þann veg að mér finnist skynsamlegt að fara þá leið og það er eina ástæðan fyrir því að menn geti farið (Forseti hringir.) í hana með þeim hætti.