140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að mistök hefðu orðið varðandi breytingartillögur sem ég hugðist leggja hér fram. Ég hafði lagt fram við 2. umr. breytingartillögur varðandi heilbrigðisstofnanir á landsvísu, dró þær til baka, óskaði eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu eins og ég fór ítarlega yfir í ræðunni minni áðan. Nú er staðan einfaldlega þannig að hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason þurftu að óska eftir sérstakri undanþágu til að leggja breytingartillögur sínar fram, það var allt unnið á síðustu stundu. Mér fannst ómaklega að mér vegið hér af hv. þm. Ásbirni Óttarssyni þar sem hann sagði að um slæm vinnubrögð væri að ræða. Ég vísa því algjörlega til föðurhúsanna.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé reiðubúinn að draga til baka hluta af þeim niðurskurði sem kom til framkvæmda á síðasta ári.