140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að átta mig almennilega á þessu máli. Hæstv. ráðherra sagði að fjármálaráðuneytið og fjárlagaskrifstofan hefðu tafið framgang þess að hæstv. ráðherra kæmi með það frumvarp sem hann á eftir að mæla fyrir og er ekki komið í þinglega meðferð.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem ég las mjög vel, er kafli sem fellur undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið þar sem einfaldlega er sagt að gert sé ráð fyrir að rekstrargjöld dragist saman um 40 millj. kr. á næsta ári vegna áforma um hagræðingu hjá stofnuninni í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun útgjalda. Aðrar breytingar á fjárveitingum til stofnunar skýrast af launa- og verðlagsreikningi frumvarpsins. Þetta er texti sem kemur frá hv. efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá hlýtur kannski eðlilegasta spurningin að vera sú hvort hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra standi þá ekki að framlagningu fjárlagafrumvarpsins sem slíks. Engar athugasemdir eru gerðar við það í textanum að til standi að gera þær breytingar sem hæstv. ráðherra fjallar um og þess vegna á ég erfitt með að átta mig á því hvers vegna hæstv. ráðherra heldur því fram að fjármálaráðuneytið og fjárlagaskrifstofa þess hafi komið í veg fyrir að hann fari í þessa tekjuöflun.