140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Ég deili með honum þeim sjónarmiðum að það þarf að tryggja að Fjármálaeftirlitið sé öflugt og sinni verkefnum sínum, en ég vil heyra það frá ráðherra að hann sé ekki ósáttur við þann texta sem er í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það er ekki endilega samasemmerki á milli aukinna fjárveitinga og þess hversu öflug og sterk eftirlitsstofnun eins og Fjármálaeftirlitið er. Það þarf líka að tryggja innviðina á viðkomandi stofnun, þekkinguna, viðhorfið hjá stofnuninni til verkefna sinna. Það var kannski ekki síður þar sem veilurnar voru á sínum tíma hjá Fjármálaeftirlitinu, ekki bara að það hefði ekki nægilega fjármuni heldur ekki síður hitt að ákveðið viðhorf innan stofnunarinnar var ekki í lagi. Það þarf að laga það. Það kemur ekki allt með fjármunum en það er auðvitað hluti af þessu. Ég legg áherslu á að farið verði í mat á því hvað okkur hefur tekist að gera með Fjármálaeftirlitið með auknum fjárveitingum og þá vonandi með bættum vinnubrögðum.