140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni er ég ekki ósáttur við rökstuðninginn fyrir breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar um að fram fari óháð úttekt á Fjármálaeftirlitinu. Það hefur oft sætt óháðri úttekt og það hefði því verið betra að frumvarpið frá mér hefði verið komið inn í þingið af því að þar hefði komið fram hvaða úttektir búið er að gera.

Í fyrsta lagi gerði Kaarlo Jännäri á sínum tíma úttekt á eftirlitinu. Síðan kom Pierre-Yves Thoraval nú á útmánuðum og gerði aðra úttekt. Við höfum haft Mats Josefsson í heimsókn og hann hefur líka verið að kanna stöðu Fjármálaeftirlitsins og gera ýmsar úrbótatillögur. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, það er ekki allt fengið með peningum, það þarf líka að bæta verklag og vinnubrögð. Nú og svo kemur Kaarlo Jännäri aftur hingað eftir áramótin.

Ég verð að segja eins og er að ég held að það sé leitun að öðrum eins úttektum alþjóðlegra sérfræðinga á opinberum stofnunum og hér eftir hrun. Við eigum alveg að geta treyst því að við getum búið til umgerð sem verði okkur sæmandi án þess að fara offari í fjárveitingum, og má þá minna á að því var ítarlega beint til Fjármálaeftirlitsins að gæta fyllsta aðhalds. Það hefur Fjármálaeftirlitið gert í endurgerðum áætlunum sínum.