140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:01]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get raunar tekið undir það. Það sló mig mjög þegar ég sá tillöguna við 2. umr. um 37 milljónir í aðstoðarmenn — af hverju ekki í þágu velferðar? Það er í andstöðu við það sem ýmsir forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa mælt í þessum ræðustóli. Ég hef oft verið í þeirri stöðu að það sem helst hann varast vann varð að koma yfir hann. Þegar ég var í stjórnarandstöðu til febrúarbyrjunar árið 2009, snerist allt við, fór allt á haus. Ég átti erfitt með að fóta mig eða „höfða“ mig á hausnum, ef ég má orða það frekar þannig.

Sameiningar ráðuneyta og sameiningar stofnana hafa oft farið fram á töfraorðinu sameining en ekki af því að grunurinn væri skoðaður til hlítar, þ.e. að í upphafi væri endirinn á málinu skoðaður. Það hefur hins vegar Ríkisendurskoðun gert eftir á og langflestar sameiningar fá falleinkunn. Stórt er ekki endilega ódýrt. Minni stofnanir vinna oft miklu einbeittar og farsælla að verkefnum en risastofnanir og þjónustan er iðulega til muna betri.