140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:05]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef gengið í gegnum fjárlagaumræður í nokkur ár, fyrst veturinn 2007, svo 2008, svo tvisvar 2009, síðan 2010 og núna 2011. Þar hafa þingmenn talað einum rómi um að breyta verði formi við gerð fjárlaga. Því miður sé ég ekki breytingar.

Ég heyri tillögur núna sem mér líst ágætlega á en það er vandalaust að mínu mati að gera fjárlagafrumvarpið þannig úr garði að það taki mann ekki nema tiltölulega stuttan tíma, nokkra tíma, að lesa úr því til vitneskju til hlítar, til fullrar vitneskju. Það verður að breyta fjárlagagerðinni og það verður að setja hana upp í töflur þannig að það sé læsilegt og skiljanlegt almenningi, að maður þurfi ekki að vera í fjárlaganefnd til að skilja dæmið til hlítar, þjóðin kemst ekki þangað öll.

Varðandi Samkeppniseftirlitið hafði ég skýra fyrirvara á þeim tillögum, að koma inn í það á þeim örfáu dögum sem voru til stefnu. Ég lýsti því áðan að það væri pólitískt táknrænt, viljayfirlýsingar um að forgangsraða í þágu velferðar. Þess vegna sé ég það fyrir mér að bæði Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið taki tímabundið meiri skerðingar á sig en heilsugæslur og sjúkrahús meðan við erum að vinna okkur úr krísunni.

Það er skýringin, en það kann vel að vera að það sé rétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson segir, (Forseti hringir.) að Samkeppniseftirlitið sé illa haldið fjárhagslega.