140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja, vegna orðaskipta sem urðu milli mín og hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar áðan þegar ég var í andsvörum við hann, og hv. þingmanni fannst vera vegið ómaklega að sér, að það var ekki ætlun mín að gera það. Ef svo hefur verið biðst ég afsökunar á því.

Ég verð að staldra aðeins við þau orðaskipti sem urðu hér áðan. Ég skildi ekki hv. þm. Atla Gíslason þannig að hann væri að fullyrða að það væri með vilja gert að setja frumvarpið svona illa fram. Ég vil skilja þetta sem svo að þetta sé ábending hv. þingmanns um að okkur beri að vanda betur vinnubrögðin. Þannig skildi ég ræðu hv. þingmanns þar sem hann vék sérstaklega að þessu. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra vera frekar viðkvæmur og gera of mikið úr þessari túlkun hv. þingmanns. Ég tel að við eigum að taka þessi orð sem ábendingu. Eins og réttilega var bent á er hægt að finna öll þessi gögn en það er ekki svo einfalt fyrir hvern sem er. Ég hafði reyndar ekki hugsað út í það en hv. þm. Atli Gíslason vakti athygli mína á því að hugsanlega eru það fleiri en hv. þingmenn sem vilja skilja þetta mjög vel, aðilar sem vilja kafa mjög djúpt ofan í þessi mál. Þá er bara til bóta að við lögum vinnubrögðin.

Ég verð þó að segja, miðað við það sem ég tók eftir í lok síðustu viku, að mér fannst að hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að bregðast dálítið harkalegar við þegar hæstv. iðnaðarráðherra sagði í ræðustól á Alþingi að umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við ákveðið frumvarp sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti fyrir væri pólitískt plagg. Hún fullyrti í ræðustól að starfsmenn fjárlagaskrifstofu Alþingis væru einfaldlega á móti þessu máli og væru að skrifa pólitískt plagg og það markaði umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra mundi snúast fast til varnar fyrir það góða starfsfólk, eins og hann sagði áðan og ég tek heils hugar undir. Við þurfum að átta okkur á því að ef þessi orð hæstv. iðnaðarráðherra reynast rétt, sem ég efast stórlega um, ég tel þau ekki vera rétt, þá situr eftir sú spurning hvernig við eigum að lesa hér eftir allar þær umsagnir sem koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það finnst mér vera stóra málið.

Síðan vek ég athygli á þeim orðaskiptum sem urðu vegna ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann sagði beinlínis að fjármálaráðuneytið hefði komið í veg fyrir að frumvarp hans gæti komið inn til þingsins. Ekki hefur verið mælt fyrir því og það er ekki komið til nefndar. Það væri fjárlagaskrifstofa, og hæstv. fjármálaráðherra ber væntanlega ábyrgð á henni, sem stæði í vegi fyrir því, að verða við þeirri beiðni að hækka útgjöldin, eftirlitsgjaldið. Það er alveg sérkapítuli út af fyrir sig hvernig gengið er um þessi fjárlög og hvernig þau eru samþykkt.

En ég vil þó vekja athygli á einu sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. fjárlaganefnd gagnrýndum töluvert. Við margbentum á og óskuðum eftir að við meðferð málsins milli 2. og 3. umr. drægju menn andann aðeins rólegar, ef ég mætti orða það þannig. Menn gæfu sér meiri tíma. Það voru einungis haldnir tveir fundir í hv. fjárlaganefnd frá því að málið var klárað eftir 2. umr. og það kom til 3. umr. Seinni fundurinn stóð reyndar heila helgi og var frestað frá laugardegi til sunnudags. Hann var eingöngu til að taka málið út. Ég segi fyrir mína parta, virðulegi forseti, að ég vona að ég upplifi ekki aftur í hv. fjárlaganefnd slíka fundarstjórn og hvernig staðið var að fundum eins og þeim sem haldnir voru milli 2. og 3. umr.

Á fyrri fundinn mættu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem höfðu sent okkur gögn tveimur eða þremur dögum áður og bentu okkur á mjög alvarleg málefni sem við þyrftum að skoða mjög vel í hv. fjárlaganefnd. Fundurinn var þannig að áður en hægt var að klára dagskrána var byrjaður þingfundur þannig að í raun og veru voru allir á hlaupum út af fundinum og reyndar inn á fundinn líka. Þannig var hin efnislega meðferð á milli 2. og 3. umr. hjá hv. fjárlaganefnd.

Svo ég snúi mér aftur að því sem ég kom inn á áðan þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði að það hefði í raun og veru verið fjármálaráðuneytið sem hefði komið í veg fyrir að hann hefði getað mælt fyrir sínu máli. Þegar við óskuðum eftir því í hv. fjárlaganefnd að menn gæfu sér aðeins meiri tíma til að gaumgæfa þær upplýsingar sem við höfðum fengið, kannski líka af virðingu og tillitssemi við það fólk sem vinnur við það að ganga frá þingskjölum þannig að þau séu í lagi, var alltaf sagt: Nei, við ætlum að halda starfsáætlun. Í starfsáætlun segir að 3. umr. fjárlaga eigi að vera 6. desember. Við bentum hins vegar á að ríkisstjórnin hefði komið með tillögupakka sinn til hv. fjárlaganefndar þremur dögum of seint. Það var ekki tekið tillit til þess.

Svo vil ég vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nú er allt í einu er búið að breyta fimmtudeginum, sem átti að vera nefndadagur, í þingfundardag. Þegar fulltrúar minni hlutans í fjárlaganefnd óskuðu eftir því að við frestuðum umræðunni fram á fimmtudag og atkvæðagreiðslu fram á föstudag af því að við töldum að við þyrftum að hafa þann tíma til að fara yfir málið, þá var það ekki hægt. En hver skyldi vera ástæðan fyrir því að nú er búið að breyta nefndadegi í þingfundardag? Hún er mjög einföld. Það er vegna þess að ekki er hægt að halda nefndadag af neinu viti, það er aðeins búið að mæla fyrir níu málum af 34 sem eru dagsetningarmál, þannig að nefndirnar hafa í raun og veru ekki þau frumvörp og mál í höndunum sem þær eiga að fjalla um. Þetta er að mínu mati algerlega óboðleg vinnubrögð og má kannski merkja á umræðunni áðan þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fjallaði um aukningar á framlögum til Fjármálaeftirlitsins. Þetta eru vinnubrögðin, virðulegi forseti.

Síðan tel ég mjög mikilvægt að við ræðum það í algerri hreinskilni, og ég gerði það við 2. umr., hvernig við ætlum að fjalla um tekjuhlið frumvarpsins. Nú eru þingsköpin þannig að tekjuhliðin virðist vera algerlega munaðarlaus. Það er ekki lengur með þeim hætti að efnahags- og viðskiptanefnd gefi hv. fjárlaganefnd umsögn um tekjuhliðina áður en frumvarpið fer til endanlegrar afgreiðslu. Það segir ekki í þingsköpum að þannig eigi það að vera. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessu verði breytt. Það er gríðarlega mikilvægt að við sníðum þennan agnúa af. Ég fagnaði því í andsvari í dag að hv. þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, tók undir með mér að það þyrfti að skoða það í hv. fjárlaganefnd hvort ekki ætti að breyta þessu strax og hv. fjárlaganefnd mundi hugsanlega flytja breytingartillögu um að sníða þennan agnúa af, því að þetta gengur ekki, virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt að ekki hafi farið fram rýning á tekjuhlið frumvarpsins við 3. umr. Þetta eru að mínu viti mistök sem hafa orðið við gerð þingskapafrumvarpsins eða yfirsjón. Ég held að við ættum að taka saman höndum í hv. fjárlaganefnd um að flytja slíka breytingartillögu svo við þurfum ekki að rífast um þetta atriði og líka til að gera vinnubrögðin ásættanlegri.

Ég vil til viðbótar fjalla um nokkuð sem ég tel mikilvægt að við skoðuðum milli 2. og 3. umr. Við 2. umr. fjárlaga hafði verið bætt 455 millj. kr. við umboðsmann skuldara. Ég taldi mjög æskilegt, og óskaði oft eftir því, að fá fulltrúa frá þeirri stofnun til að mæta á fund nefndarinnar þannig að menn væru ekki að setja inn nánast tvöföldun á framlögum til stofnunarinnar án þess að það væri rætt efnislega við hv. fjárlaganefnd hvernig sú hækkun mundi gagnast í því að taka á þeim vandamálum sem unnið væri að hjá stofnuninni. Það er einhvern veginn þannig að alltaf er verið að hrúga þarna inn fleira og fleira fólki en síðan er að mínu viti allt of lítil umræða um þau úrræði sem þetta ágæta fólk er að vinna með. Þetta er kannski spurning um að breyta úrræðunum í staðinn fyrir að fjölga fólki við að hræra í einhverjum pappírum sem bjóða kannski ekki upp á nokkra einustu leið að hjálpa því ágæta fólki sem til umboðsmannsins leitar.

Síðan vil ég, virðulegi forseti, fjalla örlítið um tillögu meiri hlutans um útgjaldaaukningu vegna hönnunar á fangelsi á Hólmsheiði, 190 millj. kr. framlag. Til viðbótar voru settar 55 millj. kr. á Litla-Hraun og ég efast ekki um að full þörf er fyrir þá fjármuni. En ég held að skynsamlegra sé að það liggi algerlega fyrir hvernig menn ætla að fara í verkefnið en ekki að menn fari núna í hönnun og síðan verði seinna tekin ákvörðun um hvernig á að fjármagna verkefnið. Það eru í raun og veru ekki boðleg vinnubrögð. Það er mjög mikilvægt að sú ákvörðun liggi fyrir núna vegna þess að ef menn ætla að fara í einkaframkvæmd á þessu verkefni er eini kosturinn við hana að mínu mati sá sem snýr að hönnun og byggingarkostnaði. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að menn eigi ekki að fara í þessar framkvæmdir á þennan hátt, að reyna að taka þær fyrir utan efnahag ríkissjóðs. Þá verður að minnsta kosti að sýna skuldbindingar á móti í leigusamningi sem væri gjaldfærður hjá ríkinu. Svona má þetta ekki vera og við erum í raun komin langt fram úr okkur hvað þetta varðar.

Ég ætla að staldra enn, virðulegi forseti, við orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hann lét falla þegar hann var að fjalla um Fjármálaeftirlitið og það frumvarp sem hann er að leggja fram um að auka tekjur til þess um 548 millj. kr. Ég er ekki að leggja mat á það hvort það sé nauðsynlegt gagnvart stofnuninni, ég hef engar forsendur til þess og þetta snýst ekkert um það. Við megum ekki detta enn og aftur í þá umræðu að þeir sem leyfa sér að staldra við svona sjálfkrafa útgjöld hjá ákveðnum stofnunum og gera athugasemdir við þau, séu eitthvað á móti því að þær stofnanir sinni hlutverki sínu. Við megum ekki detta í slíka umræðu, við gerum það allt of oft. Ég ætla engum í þessum sal sem vill skoða þessar fjárveitingar og þá aukningu sem hefur orðið til þessarar stofnunar, að hann vilji ekki og ætlist ekki til að hún vinni sín verkefni.

Þá komum við einmitt að þeim vanda sem maður hefur svo oft um fjallað í þessum ræðustól um aga í ríkisfjármálum og hvernig við ætlum að ná tökum á þeim. Ég er að verða ansi þreyttur á því að nógu mikið er um það talað en það er bara ekkert gert í því. Mér finnst það orðið algerlega óþolandi. Ég minni á að það þótti merkilegt tímamótaplagg sú sameiginlega skýrsla sem hv. fjárlaganefnd öll skilaði af sér vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna endurskoðunar ríkisreiknings 2009. Þar stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Vinnubrögð við framkvæmd fjárlaga, þar með talið uppgjör og reikningsskil, hafa verið ámælisverð árum saman og gerir fjárlaganefnd kröfur um breytingar.“

Seinna í þessari skýrslu kemur líka fram hversu mikilvægt það er að setja allar stofnanir inn á fjárlög en ekki bara sumar. Skýrasta dæmið um það kom nú bara fram hér fyrir nokkrum mínútum í þessari umræðu þegar efnahags- og viðskiptaráðherra var að fjalla um það frumvarp sem hann hefur ekki enn getað mælt fyrir.

En hvers vegna gerist ekki neitt? Það er ekki að ástæðulausu að ég fjalla um þetta. Við höfum fengið mörg bréf frá Ríkisendurskoðun þar sem bent er á nákvæmlega þetta, fjölmargar ábendingar um hversu mikilvægt þetta er til að ná einhverju viti í stjórn fjármála ríkisins.

Þegar skýrslan um ríkisreikning 2010 er lesin, þ.e. álit fjármálaráðuneytis og fjárlagaskrifstofunnar eða þeirra sem skrifa það álit, má sjá að enn og aftur er hnykkt á því sama. Framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og allir aðilar eru sammála um að mikilvægt sé að breyta þessu og bent er á ósamræmi, óréttlæti og ójafnræði á milli ákveðinna stofnana og forstöðumanna þeirra um hvernig beri að gera þetta. En samt breytist ekki neitt. og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég er að verða mjög óþolinmóður. Ég veit ekki hvort einhver vilji sé hjá hv. Alþingi um að breyta þessu. Allir virðast vera sammála um að breyta þessu en það breytist bara ekki neitt. Og þetta eru ekki neinar smáupphæðir sem við erum að tala um. Á níu ára tímabili eru tilfærslur innan kerfisins um 230 milljarðar. Þetta eru engar smátölur. Og ætli þessar mörkuðu tekjur verði ekki núna upp undir 100 milljarðar í ríkisreikningi? Það verður ekki langt frá 100 milljörðum.

Þegar við fjöllum síðan um lokafjárlögin hverju sinni, við erum ekki enn þá farin að fjalla um þau fyrir árið 2010, nemur ósamræmið í þeim gríðarlegum upphæðum. Á árunum 1998–2007 var frávikið milli fjárlaga og lokafjárlaga 230 milljarðar. Þessu verður að breyta, virðulegi forseti, ef einhver markviss fjárhagsstjórn á fjármálum ríkissjóðs á að nást.

Þá vil ég koma aftur inn á það sem ég fór yfir áðan. Ég taldi að við hefðum átt að skoða betur upplýsingarnar sem komu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og þau úrræði sem sveitarfélögin hafa. Sveitarfélögin benda á, og hafa miklar áhyggjur af, að á næsta ári mun aukinn kostnaður sveitarfélaganna verða allt að 1,5 milljarðar. Einhver verður að greiða kostnaðinn, ég skil það mjög vel, en eigi að síður þurfum við að ræða þetta mjög vandlega í framhaldinu. Það sem stakk mig mest er að þegar það ágæta fólk sem því miður lendir í því að hafa ekki atvinnu fer frá Vinnumálastofnun yfir á framfærslu, þá hafa sveitarfélögin eðli málsins samkvæmt, ekki sömu úrræði og Vinnumálastofnun hefur til að sinna því og það tel ég ekki gott.

Í bréfinu frá sveitarfélögunum er síðan mjög athyglisverð hugmynd sem ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að skoða. Í henni er gert ráð fyrir því að búinn verði til eins konar neyðarsjóður, eins og það er orðað í bréfinu, fyrir sveitarfélög sem eru fjárhagslega illa stödd og það yrði gert í samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Í bréfinu er eindregið varað við skerðingunni á aukaframlaginu. Af hálfu sveitarfélaganna er talið að það þurfi að vera 1.200 millj. kr. en á einungis að verða 350 millj. kr. á næsta ári. Það tel ég mjög varhugavert og eins líka það sem gerðist á þessu ári þegar aukaframlagið var að stórum hluta nýtt til að koma til móts við skuldavanda eins sveitarfélags. Það bitnar að sjálfsögðu á hinum og það má eiginlega orða það þannig að þau sem eru illa stödd gjaldi fyrir eitt sem er allra verst sett. Ég tel mjög mikilvægt að skoða þetta, virðulegi forseti.

Við þurfum líka að ræða það hreinskilnislega að þegar skrifað er undir samkomulag milli ríkisins og atvinnulífsins, hvort sem það er stöðugleikasáttmáli eða samkomulag til að liðka fyrir kjarasamningum, eða samkomulag við sveitarfélögin, þá verðum við að breyta því að frágangurinn sé svoleiðis að hver geti túlkað það með sínu nefi. Það verður að vera alveg klippt og skorið hvað í því felst þannig að menn þurfi ekkert að deila um það. Það er algerlega óþolandi að þetta sé alltaf svona. Það þarf að vera alveg skýrt til hvers er ætlast af ríkinu og það liggi fyrir og menn þurfi ekki að eyða tíma og kröftum í að karpa um það.

Þá vil ég aðeins koma að þeim breytingartillögum sem við í 1. minni hluta í hv. fjárlaganefnd flytjum. Í honum eru ásamt mér hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og hv. þm. Illugi Gunnarsson. Við leggjum til öðruvísi forgangsröðun í ríkisútgjöldum. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er hreint með ólíkindum að ekki sé hægt að hlífa þeirri grunnþjónustu sem allir virðast vera sammála um að hlífa, þ.e. af hverju ganga þarf fram í heilbrigðisþjónustunni með þessum hætti. Tillögur okkar ganga í stuttu máli út á að heilbrigðisstofnanir hafi í raun og veru sama fjármagn og þær höfðu á fjárlagaárinu 2011, þ.e. árinu sem er að líða. Við gæfum okkur tíma til að vinna þá vinnu sem við teljum að þurfi að gera til að við náum einhverri vitrænni niðurstöðu um hvernig við viljum reka heilbrigðiskerfið en ekki eins og gert var í fyrrahaust, við þekkjum það allt saman, þegar fjárlögum er hent fram með hræðilega óábyrgum hætti, síðan aftur í haust og svo er dregið í land og vandanum frestað eins og við höfðum gert í fyrra, einum fjórða frestað og svo koll af kolli.

Það er mjög mikilvægt að menn dragi andann rólegar og gefi sér þann tíma sem greinilega þarf til að vinna þetta. Ég tel mikilvægt að breytingarnar séu ekki handahófskenndar. Það á ekki að vera þannig vegna þess að þegar búið er að leggja fram frumvarpið þá ætti að liggja fyrir í ráðuneytinu hvernig skera eigi niður. En síðan er dregið úr niðurskurðinum og jafnvel milli 2. og 3. umr. eins og var gert núna, þó að það væri reyndar ekki nógu mikið að mínu viti. Þetta snýst um forgangsröðun. Verst er þó óöryggið sem sett er út í samfélögin, út í byggðarlögin með þessu og fólk upplifir að það sé í raun og veru ekki öruggt um heilbrigðisþjónustu.

Það sem er kannski mikilvægast að skoða er raunhagræðingin þegar farið er af stað með þessi verkefni. Oft og tíðum er bara verið að flytja þau á milli stofnana, því miður. Þetta þarf að vinna miklu betur en gert hefur verið. Ég ætla að rifja það upp að í fyrra þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram ætluðu menn að færa fullt af verkefnum yfir á Landspítalann svo hægt væri að hagræða á móti á hinum stofnununum. En þá sögðu forsvarsmenn Landspítalans: Þetta er ekki framkvæmanlegt vegna þess að við getum ekki tekið við fleiri verkefnum öðruvísi en fá aukið fjármagn. Þar hrundi í raun og veru grunnurinn að niðurskurðinum í velferðarmálum. Það sem pirrar að minnsta kosti mig mest og ég er ósáttastur við er að ekki skuli hafa verið gengið lengra í því að leiðrétta við heilbrigðisstofnanirnar um allt land. Allir hér inni vita hversu mikilsvert er að gera þetta ekki með þessum hætti.

Mig langar að staldra við nokkrar tillögur sem við fulltrúar þingflokks Sjálfstæðisflokksins höfum flutt. Við leggjum til óbreytt framlag á allar stofnanir. Með breytingartillögum okkar erum við í raun að bæta upp mismun á því sem búið er að laga nú þegar og fjárveitingunum árið 2011.

Mig langar að nefna eina stofnun til að byrja með en það er Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki. Hún fékk slæma útreið í fyrra þegar frumvarpið var lagt fram. Síðan var dregið úr þeim niðurskurði en svo er aftur hoggið í sama knérunn. Dregið hefur verið að hluta til úr hagræðingarkröfunni en eigi að síður situr eftir krafa á stofnunina um að hún skeri töluvert niður á næsta ári. Ég held, og sýnt hefur verið fram á það, að 41 millj. kr. sem spara á með þessum niðurskurði hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki er í raun og veru bara tilflutningur á kostnaði. Og það sem verra er, og á það hefur okkur þingmönnum verið bent á undanförnum dögum með póstsendingum frá íbúum á þessum svæði, er hvaða augljósu afleiðingar þetta hefur fyrir samfélagið og íbúa samfélagsins. Það þarf að loka endurhæfingardeildinni, það er óhjákvæmilegt vegna þess að forstöðumenn stofnunarinnar verða að bregðast við og reka stofnunina innan fjárlaga. Fólk sem hefur verið þarna í endurhæfingu getur í raun og veru ekki búið áfram á þessu svæði, það verður að fara í endurhæfingu einhvers staðar annar staðar. Og hvar er næsti staður til að fara í endurhæfingu? Væntanlega á Akureyri eða í Reykjavík. Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, og er hreint með ólíkindum. Þetta er fólk, bæði ungt og fullorðið, sem hefur lent í slysum eða einhverjum áföllum sem gera það að verkum að það hefur skerta starfsorku. Það segir sig sjálft að það er oft og tíðum ekki aflögufært og hefur ekki efni á að fara í þessi úrræði þannig að í raun og veru er vegið að innviðum samfélagsins. Þetta er mjög ósanngjarnt. Ég gæti vitnað í marga tölvupósta sem ég hef fengið með ábendingum frá fólki um hvað muni gerast við þetta. Búsetuskilyrði þeirra og fjölskyldna þeirra munu raskast. Hér er ekki um stóra upphæð að ræða og það er nefnilega hægt að taka þessa peninga annars staðar frá. Það er hægt að forgangsraða öðruvísi þó að ekki eigi að stilla málum upp gagnvart hvert öðru.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd leggjum til aukin útgjöld upp á 1.170 millj. kr. sem koma eiga til móts við heilbrigðisstofnanirnar og öldrunarþjónustuna að stærstum hluta. Við erum líka með tillögur um hvar skera megi niður á öðrum stöðum. Það er hægt að skera meira niður á fullt af stöðum. Þar sem ég nefndi niðurskurðarkröfuna á Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki þá vill svo til að þetta er nánast sama upphæð og kostar að ráða aukalega þrjá aðstoðarmenn fyrir ráðherrana. Í mínum huga er ekki vafi á á hvoru er meiri þörf. Ég bendi á þetta vegna þess að að þegar við förum í svona aðgerðir, eins og að skera niður með þessum hætti hjá heilbrigðisstofnunum, þá verðum við að hugsa málið til enda. Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir samfélagið? Það liggur alveg fyrir, það hefur slæmar afleiðingar, bæði hvað varðar öryggi fólks og búsetuskilyrði. Hefði ekki verið nær að draga aðeins andann og hugsa málið til enda? Erum við að færa til kostnað í kerfinu? Ég tel vera mikla hættu á að við séum að gera það. Við erum klárlega að auka kostnað íbúanna, þeir þurfa að ferðast meira á milli staða og þetta getur líka haft þær afleiðingar og blasir reyndar við í sumum tilfellum, að þetta splundrar fjölskyldum.

En hvert var aftur markmiðið með breytingunum á ráðuneytunum? Jú, spara og hagræða. Hæstv. forsætisráðherra sagði: Framkvæmdarvaldið og ríkisstjórnin verða að sýna frumkvæði og vera tilbúin til að spara og hagræða til að geta ætlast til að hinir vilji gera það líka. Þetta eru góð og gild rök, ég gef ekkert lítið fyrir þau. En hver var svo niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú að við færslur ráðuneytanna var farið í breytingar á húsnæði fyrir tugi milljóna. Síðan eru ráðnir aðstoðarmenn og hafa verið starfandi aðstoðarmenn í bæði innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu, þ.e. tveir aðstoðarmenn. Hver er svo raunsparnaðurinn í rekstri ríkisins? Hann er sá að verið er að spara bilið á milli kaups þingmanns og ráðherra. Samt er eytt tugum milljóna í breytingar á húsnæði. Þess vegna þurfum við að hugsa þessa hluti til enda þegar við förum í hagræðingu og gerum sparnaðarkröfur til heilbrigðisstofnana.

Ég gæti talið upp margar fleiri stofnanir, t.d. Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þær fregnir eru að berast að nú þegar Heilbrigðisstofnun Vesturlands þarf að útfæra sparnaðarkröfu sína, þarf hugsanlega að loka einhverri heilsugæslustöð á landsbyggðinni af því að stofnunin er sameiginleg heilbrigðisstofnun fyrir Vesturland og nær reyndar norður í land líka. Loka verður á einum stað. Hvað þýðir það? Það þýðir það sama og ég hef farið yfir, það mun bæði raska búsetuskilyrðum og öryggi fólks í þessum byggðarlögum.

Okkur þingmönnum kjördæmisins barst bréf frá sveitarstjórninni í Skagafirði í pósti í dag. Þar kemur fram nokkuð merkilegt, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, virðulegi forseti:

„Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir harðlega þeim niðurskurðartillögum á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki sem áformaðar eru. Sveitarstjórn mótmælir einnig harðlega þeim vinnubrögðum velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, að verða ekki við ítrekaðri beiðni sveitarstjórnar um fund vegna fyrirhugaðs niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.

Þetta varð ég að lesa, virðulegi forseti, tvisvar ef ekki þrisvar. Ef það reynist rétt að hæstv. velferðarráðherra, sem er bóngóður maður, hafði ekki orðið við því að hitta sveitarstjórnina í Skagafirði þykir mér það afar dapurt.

Með vísan til þess sem ég sagði áðan um hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir stofnunina og samfélagið, þá vil ég lesa nokkuð sem kemur fram í ályktun sveitarstjórnarinnar, en undir þetta skrifa allir fulltrúar hennar, með leyfi forseta:

„Ef þessi niðurskurður er til marks um norræna velferð frábiðja Skagfirðingar sér hana en óska þess í stað eftir þeirri íslensku velferð sem þó hefur verið í boði fram til þessa.“

Þetta finnst mér lýsa því sem segja þarf um þessar tillögur og hvernig skorið er niður hjá einstökum stofnunum. Við getum endalaust talið upp dæmi varðandi Landspítalann og fleiri stofnanir, ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um þær allar en í stuttu máli, eins og ég hef áður sagt, virðulegi forseti, er gert ráð fyrir því í tillögum okkar að allar heilbrigðisstofnanir og sjúkrahús, sama hvaða nafni þær heita, hringinn í kringum landið, fái ekki skerðingar á sig á árinu 2012 og fái að vera á sama grunni og var árið 2011.

Það er eitt til viðbótar sem mig langar að nefna sérstaklega en það eru Samtök áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann eða SÁÁ. Ég tel að við séum að stíga mjög óábyrgt skref með niðurskurði þar upp á um 19 millj. kr. Þetta getur haft alvarleg áhrif og við sjáum það reyndar núna hversu alvarleg áhrif þetta getur haft. Það er mjög dapurlegt að vera með þessar litlu upphæðir sem hafa svo gríðarleg áhrif á þessar litlu en mikilvægu stofnanir í grunnþjónustu velferðarkerfisins en á sama tíma er hægt að bruðla með tugi milljóna í fullt af öðrum fjárlagaliðum. Ég treysti mér til þess, virðulegi forseti, ef meiri hlutinn mundi vilja samþykkja það, þótt ég tæki ekki neinn af þeim liðum sem við nefnum í tillögum okkar, væri hægt að gera þetta á tíu mínútum án þess að það mundi hafa nein áhrif á þessa viðkvæmu innviði samfélagsins. Ég harma mjög þessi vinnubrögð.

Ég vil í lok máls míns koma örstutt inn á að það er mikilvægt að átta sig á því að í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að afgreiða núna við 3. umr., er að mínu mati innbyggður halli, þ.e. niðurstaða ársins fyrir 2012 mun ekki verða í kringum 20 milljarða heldur verður hallinn, ef allt gengur eftir, 14–30 milljarðar til viðbótar. Það má hugsanlega færa fyrir því rök að það sé vegna einskiptisaðgerða en ég held að það sé mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um hvað þetta þýðir í raun og veru fyrir hallarekstur ríkissjóðs.

Mig langar örstutt í lok máls míns að koma inn á nokkrar tillögur frá meiri hlutanum í fjárlaganefnd sem ég fagna. Ég vil fyrst taka undir tillögu um leiðréttingu á sóknargjöldunum og ég fagna henni. Fulltrúar innanríkisráðuneytisins sýndu okkur í hv. fjárlaganefnd fram á að sóknargjöldin höfðu verið skorin niður um 25% meira en allir aðrir fjárlagaliðir í innanríkisráðuneytinu og höfðu ekki notið verðlagsbóta. Á þessu fjögurra ára tímabili var skorið niður um 530 millj. kr. hjá þjóðkirkjunni umfram þann niðurskurð sem aðrir höfðu fengið. Hér er stigið það skref að bæta við 90 millj. sem felst í því að verðlagsbæta fyrir árið 2011 yfir á árið 2012. Ég tel gott að það sé gert þó svo að ég hefði viljað ganga lengra. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti að mér finnst allt of margir í þessu þjóðfélagi vera farnir að tala af mikilli vandlætingu um þjóðkirkjuna sem er einn af hornsteinum lýðræðis okkar og þjóðfélags.

Síðan vil ég líka að sjálfsögðu fagna þeim tillögum þar sem dregið er úr niðurskurði til ákveðinna heilbrigðisstofnana. Ég vil þó gera athugasemd við 77 millj. kr. hækkun á liðnum Heilbrigðisstofnanir, almennur rekstur, sem var í kringum 30 millj. kr. en er verið að færa upp í 100 millj. Eðlilegra hefði verið að kynna það fyrir nefndinni hvernig ætti að ráðstafa þessum 77 millj. kr. og skipta þeim niður, því í raun og veru er þetta sett í hendur hæstv. velferðarráðherra. Ég hefði talið að betra hefði verið að gera það öðruvísi vegna þess að nú þegar er maður farinn að heyra að verið sé að hringja út og segja að þessari stofnun verði ekki lokað vegna þess að leiðrétting komi í gegnum þennan lið sem liggur hjá ráðherra. Það tel ég ekki gott. Ég er ekki að fullyrða að þetta sé þannig en við eigum að forðast svona umræðu.

Ég vil líka fagna því sem var tekið inn af hálfu meiri hlutans og snýr að öryggissendi sem á að setja upp fyrir austan. Þá er hægt að senda öllum með virka GSM-síma á svæðinu boð um það ef einhver vá er fyrir dyrum. Eins og fyrirkomulagið er núna er það ekki fullnægjandi að mínu mati og þess vegna fagna ég þessari tillögu af hálfu meiri hlutans.

Ég vil nota síðustu mínútuna í ræðu minni til að segja að það er mjög mikilvægt að núna verði umbótaviljinn í hv. fjárlaganefnd sýndur í verki og ég treysti því að menn taki höndum saman og fari að breyta því sem allir vilja breyta og tala um breyta en er alltaf frestað og sagt að ekki eigi að breyta núna. Þegar við horfum á vandamálin, óráðsíuna og vitleysuna er alltaf sagt að við breytum þessu bara næst. Að mínu mati er komið að ögurstund hjá hv. fjárlaganefnd, hún verður að sýna hvort hún ætli að standa undir þeim væntingum sem álitið sem nefndin skrifaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar vakti, og sýni hvort viljinn sé virkilega fyrir hendi að fara í breytingar á þeim atriðum sem ég hef rakið, svo sem um þá mismunun sem hefur átt sér stað milli forstöðumanna stofnana. Það er mjög mikilvægt að ekki verði sagt eina ferðina þegar eitthvað kemur upp: Nei, við gerum þetta næst. Nú reynir á.

Svo vil ég nota síðustu sekúndurnar til að þakka öllum hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir gott samstarf fyrir vinnslu þessa máls. Eðli málsins samkvæmt erum við ekki sammála um alla hluti en starfsandinn og vinnubrögðin hafa verið mjög góð, allt fram að vinnu milli 2. og 3. umr. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, formanni nefndarinnar, og hv. þm. Birni Val Gíslasyni, varaformanni nefndarinnar, fyrir gott og náið samstarf við afgreiðslu þessa frumvarps.