140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Um helgina settumst ég og konan niður til að skipuleggja fjármál næsta árs. Við ákváðum að reyna að spara í mat með því að vera skipulagðari og útsjónarsamari í innkaupum til heimilisins en áður, við ákváðum að selja dýrari bílinn til að spara og ganga meira til vinnu, það væri jú líka hollt og gott fyrir okkur að fá slíka hreyfingu. Við ákváðum að næsta sumar mundum við mála húsið en það þarf orðið viðhald og við ákváðum einnig að við mundum lyfta okkur upp með því að fara í sólarlandaferð en það höfum við ekki gert síðan 2008 af efnahagslegum ástæðum.

Eftir að hafa sammælst um hver útgjöldin ættu að vera fengum við okkur kaffi og spjölluðum aðeins saman um daginn og veginn, ekkert sérstakt, bara eitthvað notalegt. Þá var komið að tekjuhliðinni. Það var einfaldara þar sem við erum bæði launamenn og við vitum hvað við verðum með í laun á næsta ári. Þá var nánast formsatriði að draga útgjöldin frá tekjum til að sjá hver áætluð lokaniðurstaða heimilisbókhaldsins verður á næsta ári. En þá kom babb í bátinn. Það vantaði 200 þús. kr. á mánuði til að dæmið gengi upp.

Ég sagði konunni að hafa ekki áhyggjur, ég mundi einfaldlega fara niður í þing og tala við forseta þingsins. Hún væri sanngjörn og réttsýn kona og mundi hækka launin mín þannig að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af fyrirsjáanlegum halla á heimilisbókhaldinu. Anna Ragnheiður, dóttir okkar sem fermdist í vor, hafði verið að sniglast í kringum okkur á meðan á þessu stóð, var orðin frekar undarleg á svipinn. Að lokum gat hún ekki orða bundist og spurði hvort það væri ekki vaninn að maður skoðaði hvað maður hefði í tekjur og ákvarðaði útgjöldin svo út frá því, hvort maður gæti bara sisvona fengið launahækkun ef mann vantaði pening.

Auðvitað skildi ég spurningar stúlkunnar en var fljótur að benda henni á að þetta væri gamaldags hugsunarháttur. Svona væri þetta gert á hreinum vinstri heimilum. Hvort hún vissi ekki að hér hefði orðið hrun? Menn hefðu ekki lengur áhyggjur af svona smáatriðum, þetta væri hinn nýi tími. Blessuð stúlkan leit á mig með hálfskrýtnum svip, hristi hausinn og fór inn í herbergið sitt að læra.

Nú stend ég hér, virðulegur forseti, og spyr hvort það sé nokkurt tiltökumál að hækka launin hjá mér um 200 þús. kr. á mánuði eftir áramót. Sjáðu til, útgjöldin eru hærri en sem nemur launum okkar hjóna og við viljum síður neita okkur um frekari útgjöld á næsta ári.