140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var satt að segja búinn að gleyma því hvað það getur verið skemmtilegt að hlýða á hv. þm. Illuga Gunnarsson flytja ræður úr þessum ágæta ræðustól. Ég var einnig búinn að gleyma því að ræðurnar eru ekki allar eins góðar og flutningurinn. Það á við, a.m.k. að stofninum til, um þá ræðu sem hann flutti áðan, alla vega innihald hennar.

Þingmanninum tókst að komast í gegnum ræðutímann sinn — ég held að hann hafi fullnýtt hann að mestu leyti — án þess að nefna eitt einasta jákvætt atriði í fjárlagafrumvarpinu eða segja eitthvað jákvætt um þau markmið sem stefnt er að ná á fram í ríkisfjármálum á Íslandi. Þó hefur verið tekið eftir þeim markmiðum um víða veröld og þeim árangri sem náðst hefur og um það vitnar fjárlagafrumvarp það sem við leggjum fram og greiðum vonandi atkvæði um á morgun.

Hv. þingmaður nefndi það sem dæmi að stjórnvöld veltu vandanum yfir á sveitarfélögin með breytingu í atvinnuleysismálum, sem er rangt, sem er kolrangt hjá hv. þingmanni, því að stjórnvöld og ríkisstjórn hafa bætt kjör atvinnuleitenda, þeirra sem eru atvinnulausir, og hafa lengt þann tíma sem fólk getur verið á bótum áður en það finnur vinnu. Þau hafa veitt atvinnulausum ýmsan rétt sem þeir höfðu ekki fram til þessa dags; veikindarétt, orlofsrétt, desemberuppbót, lengri tíma o.s.frv. og hlíft sveitarfélögunum við því að axla sínar lögbundnu skyldur gagnvart því fólki. Það er staðreynd málsins, hv. þm. Illugi Gunnarsson, og það er allt í lagi að minnast á það jafnvel þó að gera megi betur og jafnvel þó að sveitarfélögin kveinki sér nú undan því að þurfa að axla sínar lögbundnu skyldur (Forseti hringir.) og biðja ríkið um að taka við verkefninu frá sér.