140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[20:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef mig hefði grunað að sjálfsmynd hv. þingmanns ætti allt sitt undir hrósi frá Sjálfstæðisflokknum væri ég fyrir löngu búinn að hlaða á hann lofi og öll hans verk þannig að honum liði ögn betur með hlutskipti sitt í lífinu. Ég skal hafa það í huga, hv. þingmaður, þegar fram líða stundir úr því að svona stendur á.

Hitt vil ég segja að þegar kemur að hrósi um ríkisstjórnina verð ég að segja enn og aftur: Áhyggjur mínar, og það gerði ég að umtalsefni í ræðu minni, snúa að því að okkur gengur of hægt að vinna á atvinnuleysinu. Það eru of margir sem ganga um atvinnulausir og hafa enga von um að fá vinnu í nánustu framtíð. Það er verkefni okkar. Það er verkefni þessarar ríkisstjórnar sem hér situr og hún getur ekki ætlast til þess að fá hrós fyrr en hún stendur sig betur í því að vinna á því atvinnuleysi. (ÁI: Það er verið að því.) Það er verið að því, kallar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fram í.

Það er ekki gott að auka svo á óvissuna að forseti Alþýðusambandsins komi hér fram og segi við þjóðina að vegna gjörða ríkisstjórnarinnar, vegna þess að ríkisstjórnin haldi svo á málum sem hún gerir í þessu fjárlagafrumvarpi, séu kjarasamningar að bresta.

Frú forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason kallar eftir hrósi fyrir þá ríkisstjórn, hann biður um að talað sé vel um þá ríkisstjórn (BVG: Nei.) sem kallað hefur það fram að forseti Alþýðusambandsins sér sig tilknúinn til að koma fram og segja: Þessi ríkisstjórn neyðir Alþýðusamband Íslands til að segja upp kjarasamningum með þeim fjárlögum sem hún leggur fram.

Frú forseti. Ég mun hvorki hrósa hv. þm. (Forseti hringir.) Birni Val Gíslasyni né hæstv. ríkisstjórn fyrir slíka framgöngu. Það verður bið á því.