140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um fjárlagafrumvarpið árið 2012 við 3. umr. Áður en ég fer efnislega í málið vil ég byrja á að gera athugasemdir við það að við 2. umr. stóðu umræður um fjárlagafrumvarpið langt fram undir morgun og mér er til efs að margir hafi fylgst með þeim umræðum og að fjárlaganefndarmenn margir hverjir — þeir voru ekki margir hér í salnum þegar þær umræður fóru fram — hafi kynnt sér þær umræður sem þá fóru fram.

Frá því að frumvarpið kom fram hafa verið gerðar á því ákveðnar breytingar. Því miður eru stóru línurnar í frumvarpinu þess eðlis að það er beinlínis hættulegt að það fari hér í gegn. Áður en ég fer lengra vil ég taka undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér um þann vanda sem atvinnuleysið er og hversu erfiðlega hefði gengið að ná tökum á því. Við skulum átta okkur á því að staðreyndin er því miður að verða sú að margt fólk sem ekki fær hér atvinnu er farið að horfa til vinnu í öðrum löndum. Við heyrum nær daglega fréttir af fólki og fjölskyldum sem flytja út í leit að atvinnu. Staðreyndin er því miður sú að í dag eru fleiri þúsund flutt af landi brott, 7–9 þús. manns flutt, og flestir fara til Noregs. Þetta er um helmingurinn af þeim fjölda sem flutti til Vesturheims á sínum tíma en þá fluttu um 15 þús. Íslendingar af landi brott.

Kostnaður íslenska samfélagsins við þessa brottflutninga er gríðarlegur. Samkvæmt skýrslu sem OECD gaf út á síðasta ári kom fram að kostnaður við hvern nemanda á ári á Íslandi er um 1 millj. kr. þannig að hver háskólamenntaður einstaklingur hefur kostað samfélagið 20–25 millj. kr. með allri sinni skólagöngu þegar hann hefur lokið námi — og flytur af landi brott. Allir gera sér grein fyrir því að það er ekki verið að tala niður menntun með þessu, heldur erum við að segja að bein útlögð glötuð fjárfesting í þessum einstaklingum er um 20–25 millj. kr. þannig að það tap sem við höfum orðið fyrir með þeim fjölda Íslendinga sem hefur flutt af landi brott nemur tugum milljarða króna. Flestir þessir einstaklingar eru á besta aldri og á leið í að skapa hagvöxt og verðmæti í samfélaginu, eru að fara út á vinnumarkaðinn og greiða þannig til baka til samfélagsins það sem samfélagið hefur kostað til með menntun þeirra.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, og hefur komið margítrekað fram hér í umræðunni, að grundvallarforsenda okkar til þess að stöðva þessa þróun er að auka verðmætasköpun í samfélaginu, gera það að verkum að fyrirtæki, jafnt stór sem smá, allt frá einyrkjum og upp í stærstu fyrirtæki, sjái sér hag í því að sækja fram og efla starfsemi sína, nýta auðlindir landsins, nýta mannauðinn og þekkinguna sem við höfum til verðmætasköpunar til að stækka hér þjóðarbúið á nýjan leik.

Þetta hefur því miður ekki tekist sem skyldi og staðreyndin er því sú að við horfum upp á það að niðurskurðurinn í ár, ofan á það sem á undan hefur gengið, til að mynda í heilbrigðismálum, er orðinn svo mikill að það er ekki lengur hægt að una við. Ef við horfum á niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu á landsbyggðinni er hann að verða þannig að daglega berast okkur fréttir af því hvaða áhrif þetta muni hafa. Síðast í fréttum klukkan 19 í kvöld var fjallað um það hvernig einstaklingar norður í landi þyrftu að flytjast búferlum vegna þess að þeir gætu ekki sótt eðlilega heilbrigðisþjónustu.

Í dag var opnuð vefsíða undir yfirskriftinni egmotmaeli.is þar sem fólki hreinlega ofbýður þessi mikli niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og sú forgangsröðun sem viðhöfð er. Fjöldi sveitarfélaga hefur ályktað í sömu veru. Mig langar, með leyfi frú forseta, að vitna til einnar ályktunar, frá sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem mótmælir harðlega „þeim vinnubrögðum velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, að verða ekki við ítrekaðri beiðni sveitarstjórnar um fund vegna fyrirhugaðs niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki“.

Með leyfi frú forseta stendur áfram í þessari ályktun:

„Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að áhættumat verði ávallt lagt til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið. Jafnframt að lögð verði áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Þá eigi að kalla fagfólk og notendur til samráðs í sparnaðaraðgerðum.“

Frú forseti. Það er alveg ljóst að hvað varðar niðurskurðinn í velferðarkerfinu og heilbrigðismálunum hefur núverandi ríkisstjórn farið þvert gegn öllu sem áður hefur verið sagt, farið þvert gegn því að hafa nokkurt samráð, farið þvert gegn því að verja velferðina, farið þvert gegn því að verja byggðina í landinu og ef við skoðum þann einbeitta vilja sem hefur verið til staðar í að skera niður í heilbrigðisstofnunum, einkum og sér í lagi á landsbyggðinni, er með ólíkindum að fylgjast með. Þegar þessar tölur voru birtar á síðasta ári var það gagnrýnt mjög harkalega, m.a. af hæstv. velferðarráðherra, að niðurskurðurinn og þessar breytingar hefðu verið kynntar fyrst í fjárlagafrumvarpi og að enginn hefði haft vitneskju um þær.

Síðan tekur við sá hæstv. ráðherra sem nú er velferðarráðherra, gerir ákveðnar breytingar á og nú, ári seinna, virðist sem þetta sé allt saman gleymt. Gengin er sama vegferð, skorið niður í velferðarkerfinu, skorið niður í heilbrigðismálum. Og það er sérstaklega eitt, frú forseti, sem mig langar að fara í í þessari ályktun frá sveitarstjórninni í Skagafirði, áhrifin á byggðirnar. Við sáum áhrifin vel í fréttunum í kvöld þar sem var viðtal við konu á Sauðárkróki sem þarf að sækja þjónustu vegna þess að hún er í hjólastól. Byggðaáhrif af þessu fjárlagafrumvarpi verða að öllum líkindum þau að til að mynda þessi kona þarf að flytjast búferlum. Þetta á við með fleiri þætti. Nú hrista hausinn sumir þingmenn í salnum, en það er einmitt þetta sem hefði þurft að skoða áður en ráðist var í niðurskurðinn. Í mörgum byggðarlaganna úti á landi, vestur á fjörðum og víðar, stendur byggðin á það veikum grunni að ekki má mikið út af bera.

Á síðasta ári var samþykkt í fjárlaganefnd að fram færi sérstök byggðaúttekt á fjárlagafrumvarpinu, úttekt á því hvaða áhrif niðurskurðurinn hefði á einstök byggðarlög þegar kæmi að opinberum störfum og þjónustu sem hefði þar með áhrif á íbúafjölda og fleira í þeim dúr. Þetta var samþykkt, og samþykkt að Byggðastofnun skyldi vinna slíka úttekt.

Nú, rúmu ári síðar, liggja niðurstöður þessarar úttektar á fjárlögum síðasta árs ekki fyrir. Raunar er það í ofanálag sláandi að eftir að 1. umr. um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 fór fram hafði hæstv. velferðarráðherra ekki enn skilað inn upplýsingum til Byggðastofnunar um ákveðnar grunnforsendur til að vinna þessa úttekt. Samt sem áður fer hæstv. ráðherra fram með niðurskurð í heilbrigðismálum og velferðarmálum sem harkalegast koma niður á landsbyggðinni þrátt fyrir að vera ekki búinn að skila inn upplýsingum í byggðaúttekt sem hæstv. ráðherra sagði á síðasta ári að væri mjög mikilvægt að fram færi áður en ráðist yrði í niðurskurð sem þennan og gagnrýndi fyrri ráðherra sem kom úr samstarfsflokknum.

Það er með ólíkindum að fylgjast með því hvernig markvisst hefur verið gengið fram í niðurskurði í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Það á ekki eingöngu við á landsbyggðinni, það á líka við á höfuðborgarsvæðinu, og þetta er komið algjörlega inn að þolmörkum, öllu sem eðlilegt getur talist.

Þá segja margir: Það eru þrjár leiðir í boði; að auka tekjurnar, hækka skatta eða skera niður. Hvað viljið þið þá gera í staðinn? Þetta er jafnan það sem sagt er. Ég hef komið inn á það hér hvernig umgjörðin í kringum atvinnulífið er hjúpuð óstöðugleika sem gerir það að verkum að fyrirtæki hafa ekki sótt fram og það hefur ekki tekist að auka tekjurnar í samfélaginu. Þegar kemur að niðurskurðinum og möguleikunum til þess að skera niður á öðrum sviðum eru víða matarholur sem mögulegt er að ráðast í og flestum þætti, að ég tel, eðlilegt að ráðast í.

Mig langar í því samhengi að benda á fjárhæðir sem eru kannski ekki háar en þó verulega háar samanborið við þann niðurskurð sem við horfum upp á hjá mörgum stofnunum, m.a. heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Mig langar að benda á fyrirspurn sem sá sem hér stendur lagði fram til allra ráðuneyta fyrir nokkrum vikum til að fá upplýsingar um allar utanlandsferðir viðkomandi ráðuneyta, hversu margar þær væru og hver heildarkostnaðurinn væri.

Nú er staðan sú að öll ráðuneyti hafa svarað nema tvö. Þau ráðuneyti sem enn eiga eftir að svara eru innanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Séu þessar upplýsingar hjá öllum þessum ráðuneytum nema tveimur teknar saman er heildarfjöldi utanlandsferða yfir 4 þús. fyrstu níu mánuði ársins. Sé það uppreiknað á allt árið fyrir ráðuneytin, að þessum tveimur undanskildum, erum við að tala um 5–6 þús. utanlandsferðir. Og þá á enn eftir að koma frá tveimur ráðuneytum sem bæði eru töluvert stór þannig að það má gera ráð fyrir um 6–7 þús. utanlandsferðum það sem af er árinu.

Nú er enginn að tala um að það sé ekki mikilvægt að íslensk stjórnvöld og íslenskar stofnanir eigi í samskiptum við erlend ríki. Það er hins vegar mikilvægt á tímum sem þessum að þá sé allt gert sem mögulegt er til að draga úr kostnaði við slíkt, fækkað ferðum á ráðstefnur, fækkað fundum sem farið er á erlendis, það fari færri en áður og að menn nýti sér tæknina í meira mæli. Þetta er komið á annan milljarð sem af er árinu hjá þessum ráðuneytum, öllum nema tveimur, eingöngu flugfargjöld eru komin á annan milljarð króna. Við hljótum að spyrja okkur þegar svona er hvort ekki sé mögulegt að draga úr kostnaði þarna og nota í heilbrigðisþjónustu, m.a. á landsbyggðinni. Ég hygg til að mynda að ef við næðum þessu niður bara um 20–30% væru það einhver hundruð milljóna króna, 300–400 milljónir. Svona mætti víða fara um.

Þegar við tölum um skattahækkanirnar er alveg klárt að margar þeirra sem farið hefur verið fram með hafa skilað minna í ríkissjóð en áætlað var. Það skýtur einstaklega skökku við að þegar ráðist er fram með skattahækkanir bæði á fyrirtæki og einstaklinga skuli á sama tíma hæstv. fjármálaráðherra og utanríkisráðherra dreifa frumvarpi á þingi sem felur í sér heimild til handa Evrópusambandinu að fá hér undanþágur, fá sérmeðferð frá skattalögum. Þetta mál verður væntanlega ekki rætt fyrr en í janúar en það er með ólíkindum að á sama tíma og verið er að fást við gríðarlegan niðurskurð og réttlæta skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki hér á landi skuli menn ráðast í að koma fram með frumvarp sem felur í sér gríðarlegan skattafslátt til handa Evrópusambandinu og þeim styrkjum sem þaðan berast.

Mig langar að lesa aðeins ofan í upplýsingar úr þessum frumvörpum og þingsályktunartillögum sem liggja fyrir þinginu og hefur verið dreift, með leyfi frú forseta, það sem er undanþegið (Forseti hringir.) — með leyfi herra forseta, afsakaðu, ég sá ekki að það var búið að skipta um forseta, með leyfi herra forseta, að vitna í þessa þingsályktunartillögu og þau frumvörp sem liggja fyrir:

Þar segir meðal annars að innflutningur, sem fer fram samkvæmt reglum foraðildarsjóðsins, verði undanþeginn tollum, innflutningsgjöldum og annarri skattheimtu. Aðstoðarþeginn, í þessu tilfelli Ísland, skal sjá til þess að hlutaðeigandi yfirvöld vinni saman í einu og öllu.

Hér kemur svo, með leyfi herra forseta:

„Skattar, tollar og innflutningsgjöld eða önnur gjöld sem hafa sambærileg áhrif eiga ekki rétt á sér samkvæmt reglum foraðildarsjóðsins.“

Og:

„Allur innflutningur ESB-verktaka skal undanþeginn tollum eða innflutningsgjöldum, virðisaukaskatti eða öðrum sköttum og annarri skattheimtu sem hefur sambærileg áhrif. […]

ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi. Vörur eða þjónusta eða verk, sem verktaki samningsbundinn ESB-verktaka afhendir, veitir eða vinnur, skulu undanþegin virðisaukaskatti.“

Og annars staðar segir:

„Persónulegar eigur einstaklinga sem vinna fyrir ESB skulu undanþegnar tollum, innflutningsgjöldum, sköttum og annarri skattheimtu sem hefur sambærileg áhrif að því gefnu að …“

Aftur úr þingsályktunartillögu utanríkisráðherra:

„… samningar, sem ESB fjármagnar, eru undanþegnir opinberum stimplum eða skráningarskyldu eða skattheimtu sem hefur sambærileg áhrif.“

Frú forseti. Það er auðvitað ekki hægt að á sama tíma — þetta er ekki tæmandi listi, þetta eru fleiri blaðsíður — og við horfum upp á gríðarlegar skattahækkanir á einstaklinga, tillögu um tvísköttun á atvinnulífið, sem reyndar var dregin til baka, skuli vera dreift tillögum á Alþingi sem fela í sér gríðarlegan skattafslátt til handa Evrópusambandinu. Það er raunar með ólíkindum að menn skuli vera í þetta litlum tengslum við umræðuna í landinu að þeir telji eðlilegt að ráðast fram með þessum hætti, svo ekki sé vikið að blindninni í því að menn skuli enn telja að Evrópusambandsaðild sé lausn á öllum vandamálum okkar Íslendinga. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, ég hélt 40 mínútna ræðu við 2. umr. og fór ágætlega yfir þetta allt saman. Heilt yfir er staðreyndin sú að það er mjög mikilvægt að ná hér upp atvinnulífinu. Stór jafnt sem lítil fyrirtæki, hvort sem það eru einyrkjar eða stór fyrirtæki og allt þar á milli, þurfa að fara að fjárfesta á nýjan leik, auka framleiðslu sína og tekjur og umgjörðin í kringum þessi fyrirtæki þarf að verða þannig að menn geti séð að minnsta kosti hálfan mánuð fram í tímann þegar kemur að heildarumgjörðinni.

Hitt er að við þurfum gjörbreytta forgangsröðun í ríkisfjármálum. Ég hef komið inn á örfá dæmi þar að lútandi. Þrátt fyrir þær breytingartillögur sem fram eru komnar á ég ekki von á því að það verði nein stór stefnubreyting úr þessu, það liggur ljóst fyrir að atkvæðagreiðsla um fjárlög fer fram á morgun. Ég vonast hins vegar til þess að menn fari að sjá að sér vegna þeirra atriða sem ég hef farið yfir í ræðu minni og fari að horfa til framtíðar hvað snertir þessi mál og fleiri.