140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það kom margt athyglisvert fram í henni. Ég ætla að staldra við eitt atriði sem hv. þingmaður kom inn á, þ.e. að breyta og bæta vinnubrögð við fjárlagagerðina því að menn standa ekki í þessum römmum til að hækka þá bara upp eins og gert hefur verið. Það stendur til að árið 2013 verði fyrsta árið sem lögð verða fram svokölluð rammafjárlög þar sem settir verða ákveðnir rammar sem þýðir í stuttu máli að ef bæta á við einhvern ákveðinn málaflokk verður að skera niður annars staðar á móti þannig að menn sjái útgjaldarammann í heild sinni. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt til að ná tökum á ríkissjóðnum.

Það er búið að ræða mikið um hvernig eigi að ná aga í ríkisfjármálum. Fjárlaganefnd skilaði inn skýrslu um breytt vinnubrögð og mikill samstarfsvilji er í nefndarmönnum. Maður bindur miklar vonir við að breytingar verði á næsta ári. Ég verð þó að segja fyrir mitt leyti að því miður hefur þingið ekki staðið við þau fyrirheit eftir að skýrslan kom út vegna þess að þegar komið hafa upp álitamál um hvernig standa eigi að málum hefur alltaf verið sagt: Ja, við breytum þessu bara næst, ekki núna sko, við breytum þessu seinna.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það með mér að það sé mjög mikilvægt að við breytum meðferðinni á svokölluðum sértekjum og mörkuðum tekjum. Mörkuðu tekjurnar nálgast nú 100 milljarða í fjárlagafrumvarpinu þannig að ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt, sérstaklega í ljósi umræðunnar hér fyrr í dag þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra blandaði sér í umræðuna um Fjármálaeftirlitið, að allar stofnanir fari að fjárlögum og ekki sé verið að blanda sértekjum og mörkuðum tekjum þar saman við.