140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki útiloka breytta verkaskiptingu milli efnahags- og viðskiptanefndar annars vegar og fjárlaganefndar hins vegar. Skattamálin eru til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd eins og kunnugt er og gaf hún umsögn í hinu fyrra fyrirkomulagi um tekjuhliðina. Ég hygg að ástæðan fyrir því að frá því var fallið hafi að hluta til verið sú að í því fólst að sumu leyti tvíverknaður því að tekjuhliðin er auðvitað ekki munaðarlaus. Margir hafa áhuga á tekjuhliðinni og þess vegna fengu bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd sömu aðila á fund, þ.e. frá Hagstofunni, Seðlabankanum eftir atvikum og aðra spáaðila, til að fjalla um tekjuhliðina. Mönnum hefur þótt óþarfi að efnahags- og viðskiptanefndin gæfi síðan fjárlaganefndinni umsögn um hvað hefði komið fram í umfjöllun sömu gesta og þegar höfðu sótt fjárlaganefnd heim. En ef mönnum þykir fengur að því að halda þeirri umsögn held ég að það verði bara að skoða og ræða í rólegheitum.