140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að gert er ráð fyrir heldur minni hagvexti í nýrri þjóðhagsspá en það eru líka aðrir þættir í henni sem breytast og hafa áhrif á niðurstöðuna í fjárlögunum. Þann veikleika sem stjórnarandstaðan hafði áhyggjur af var sérstaklega farið yfir og verður endanlega gert á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í fyrramálið. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd munu því fá allar upplýsingar fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga um það efni.

Hvað varðar hvenær lög um nýja skatta eru sett get ég tekið undir með hv. þingmanni. Ég tel að best fari á því að menn setji helst lög um nýja skatta á vorþingi ef ekki árinu áður þannig að öllum aðilum gefist góður tími til að aðlagast slíkum breytingum, geti tekið tillit til þeirra við verðlagningu á vöru þegar þeir taka pantanir langt fram í tímann eins og í ferðaþjónustu og annað eftir því. Því miður höfum við búið við sérstakar aðstæður í íslenskum efnahagsmálum og þurft að taka ákvarðanir skjótt og grípa til aðgerða með litlum fyrirvara. Við höfum ekki annað okkur til afsökunar en það.