140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[21:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar haldreipum ríkisstjórnarinnar fækkar er alltaf eitt til ráða og það er að styðja sig við óskhyggjuna. Það fannst mér hv. þm. Helgi Hjörvar gera í annars athyglisverðri ræðu hér áðan þegar hann velti því fyrir sér hvort nú væri ekki að skapast nokkurn veginn friður um ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Hann vísaði sérstaklega til þess að breytingartillögur sem 1. minni hluti fjárlaganefndar flytti við 3. umr. málsins virtust ekki benda til þess að hinn pólitíski ágreiningur um ríkisfjármálastefnuna væri mjög mikill.

Þá rifjast upp fyrir mér að einu sinni var hér hv. þingmaður, sem nú er hæstv. forsætisráðherra, sem hafði þann sið að flytja ótal breytingartillögur til útgjaldaaukningar. Þegar hv. þingmaður var spurður um hvernig ætti að standa straum af þessu dró hv. þingmaður alltaf upp úr pússi sínu eina tillögu sem var svona: Hert skatteftirlit. Svo fór það bara eftir eðli mál hversu háar tekjur þetta átti að skaffa ríkissjóði, stundum var það milljarður og stundum voru það þrír. Það fór svona eftir því hvaða breytingartillögur hv. þingmaður hafði flutt við fjárlagafrumvarpið hverju sinni. Ég held að þó að hv. þingmaður hafi haft þessa einföldu reglu um tekjuöflun fyrir ríkissjóð hafi enginn ályktað sem svo að hv. þingmaður vildi endilega framfylgja óbreyttri skattstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður var þá í stjórnarandstöðu gagnvart.

Ég vil líka minna á það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur flutt mjög vel útfærða þingsályktunartillögu um breytta efnahagsstefnu þar sem meðal annars koma fram aðrar áherslur um ríkisfjármálin. Til þeirra tillagna hljótum við að vísa þegar almennt er rætt um þessi mál.

Hér hefur verið farið nokkrum orðum um hagvöxtinn og hagvaxtarþróunina. Ég gerði nokkuð ítarlega grein fyrir því við 2. umr. málsins og ætla ekki að endurtaka það, aðeins að nefna eitt. Það er rétt að það örlar fyrir hagvexti á þessu ári og talið er að svipaður en þó heldur minni hagvöxtur verði á næsta ári. Allt er þetta auðvitað mikilli óvissu háð. Látum það liggja á milli hluta. Þessi hagvöxtur er hins vegar að mjög miklu leyti drifinn af aukinni einkaneyslu og af hverju skyldi einkaneyslan stafa? Jú, meðal annars af því að hér voru gerðir nýir kjarasamningar. Þeir höfðu í för með sér aukin launaútgjöld og hafa auðvitað kallað fram aukna einkaneyslu og þar með drifið upp þennan hagvöxt.

Skyldi þetta nú vera sjálfbært? Köllum til vitnis Seðlabanka Íslands sem stundum tjáir sig um efnahagsmál eins og allir vita. Seðlabanki Íslands hefur ekki verið að skafa utan af því þegar rætt er um hversu áreiðanlegir eða sjálfbærir kjarasamningarnir séu. Ég minntist á það í ræðu minni um daginn að ég hefði setið fund þar sem m.a. var til svara aðalhagfræðingur Seðlabankans og kallaði reiðilega fram í salinn þar sem sat hópur atvinnurekenda: Hvernig í ósköpunum datt ykkur í hug að gera svona kjarasamninga? Með öðrum orðum, vísað var til sjálfrar forsendu þess hagvaxtar sem við munum vonandi búa við á næsta ári, þó að við gætum öll auðvitað látið í ljósi óskir um að sá hagvöxtur verði meiri. Ég er að vekja athygli á því að við erum að ræða um meintan hagvöxt sem byggir á ákaflega veikum forsendum svo ekki sé tekið dýpra í árinni.

Þetta fjárlagafrumvarp verður væntanlega að fjárlögum síðdegis á morgun. Þegar þau verða skoðuð í sögunnar ljósi held ég að ekki verði litið svo á að þau hafi verið hin miklu sáttafjárlög. Ég held miklu frekar að þeirra verði minnst fyrir það að frumvarpið að þeim var lagt fram af sitjandi ríkisstjórn með opin augun fyrir því að það mundi valda því að kjarasamningar yrðu í uppnámi og þeim yrði líklega sagt upp einum mánuði eða tveimur eftir samþykkt frumvarpsins. Svona er staðan.

Forseti Alþýðusambands Íslands ritaði á heimasíðu Alþýðusambandsins minnisblað þar sem að þessu var vikið og færð fyrir því rök frá sjónarhóli Alþýðusambandsins að fjárlagafrumvarpið, eins og það liggur fyrir núna og eins og það verður væntanlega samþykkt á morgun, muni leiða til þess að kjarasamningum verður sagt upp.

Með leyfi virðulegs forseta segir meðal annars svo:

„Áform ríkisstjórnarinnar um að skerða hækkun bóta almannatrygginga (og atvinnuleysistrygginga) og álögur á lífeyrissjóðina til að fjármagna umboðsmann skuldara, sérstakar vaxtabætur og almenna skattlagningu á launakostnað lífeyrissjóðanna eru klárt brot á þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga og þeim forsendum sem þeir byggja á. Verði þau að veruleika munu lífeyrissjóðir almenns launafólks þurfa að skerða lífeyrisréttindi sinna sjóðfélaga og auka þar með enn frekar á þann mun sem á lífeyrisréttindum milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin að almennt launafólk, einkum það sem verið hefur í aðildarfélögum Alþýðusambandsins og komið er á eftirlaun eða hefur misst starfsgetuna, eigi að greiða þennan reikning? Við því hafa ekki fengist nein svör. Á hinn bóginn setur þessi atlaga Alþýðusambandið óneitanlega í þá stöðu að setja upp sterkar varnir gegn þessum áformum.“

Við þetta er að bæta að í kvöld bárust einmitt af því fréttir að vegna versnandi ávöxtunarmöguleika lífeyrissjóðanna kynni að koma til þess að sjóðirnir þyrftu að skerða greiðslur til félaga sinna og þess vegna verður náttúrlega enn þá átakanlegra að átta sig á því að uppi eru sérstök áform um að leggja nýjar álögur á lífeyrissjóðina í þeim tilgangi sem ég fór yfir og vitnaði þar til orða forseta Alþýðusambands Íslands.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur kallað eftir því að við hrósuðum ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) Ég heyrði hv. þingmann kalla eftir því að við hrósuðum ríkisstjórninni. Ég ætla þá bara að gera það óbeðinn ef hv. þingmaður er að biðjast undan því að ég hrósi ríkisstjórninni, og segja: Það má segja þessari ríkisstjórn til hróss að hún hefur komið alveg hreint fram varðandi þetta mál. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekkert verið að skafa utan af því, hann segir einfaldlega: Þetta er vitleysa, þetta er ekki svona, vitandi það að mat Alþýðusambands Íslands er að fjárlagafrumvarpið óbreytt muni leiða til uppsagnar kjarasamninga. Því svarar hæstv. fjármálaráðherra bara staffírugur og segir: Þetta er ekki mitt mál, þetta er mál Alþýðusambands Íslands.

Það er rétt sem hér hefur verið sagt nokkrum sinnum úr ræðustóli að auðvitað er mjög sérkennilegt að gerðar séu yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins og þær eru varla komnar út úr prenturum tölvanna þegar strax er farið að kljást um hvað þær þýði í raun og veru. Frægasta dæmið er auðvitað stöðugleikasáttmálinn, þeir sáttmálar voru einn eða tveir og jafnóðum sviknir eins og allir vita. Nú er það þetta mál þar sem Alþýðusamband Íslands segir fullum fetum að ríkisstjórnin hafi svikið þær yfirlýsingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamningana fyrr á þessu ári. Í morgun vorum við á fundi í atvinnuveganefnd þar sem sátu fulltrúar þeirra fyrirtækja, stóriðjufyrirtækja, kísilfyrirtækja, álverksmiðjanna, sem höfðu rætt við hæstv. fjármálaráðherra um hið svonefnda kolefnisgjald. Við höfum fagnað því að horfið væri frá gjaldinu. Nú var hins vegar tilkynnt að það hefði verið lagt til hliðar. Við höfum samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins ályktun af allt öðru tilefni þar sem við notum þetta orðalag og vitum alveg hvað það þýðir. Þess vegna, eins og fram kom á fundinum í morgun, er þetta mál komið í algjört uppnám. Þetta veldur því að yfir þessi mál þarf aftur að setjast af hálfu þeirra fyrirtækja sem í góðri trú héldu að þau væru laus við þessa óværu. Nú kemur líka upp sú spurning hjá þeim sem ætla að fjármagna nýjar kísilverksmiðjur, meðal annars á Norðurlandi, meðal annars á Bakka þar sem áður hafa nú brostið vonir varðandi uppbyggingu atvinnulífsins, hvort vogandi sé að leggja í þá fjárfestingu.

Forseti Alþýðusambands Íslands segir mjög skýrt á vefmiðlinum mbl.is í dag að stjórnarflokkarnir séu búnir að taka pólitíska ákvörðun um að fórna einfaldlega samkomulaginu við aðila vinnumarkaðarins sem var gert í vor og það sé gert í von um að það hafi ekki afleiðingar. Í raun og veru telur Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, að hæstv. fjármálaráðherra sé eiginlega að mana sig, hann segi bara: Ég hlusta ekkert á Alþýðusamband Íslands. Þeir hjá ASÍ munu ekki þora að segja upp kjarasamningunum. Ég ætla bara að láta þetta yfir mig ganga og tala af kokhreysti eins og allir þekkja.

Eitt af því sem mjög hefur verið rætt í þessari fjárlagagerð eins og í fyrra eru tillögur varðandi heilbrigðisþjónustuna. Ég hef velt því mikið fyrir mér á síðustu missirum hvernig menn nálgast í raun og veru þær niðurskurðarhugmyndir sem birst okkur í fjárlagafrumvörpum í haust og ekki síður í fyrrahaust en þá var komið fram með mjög stórkarlalegar hugmyndir um niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni. Það var ekki liðinn dagurinn þegar fyrstu stjórnarliðarnir voru komnir á harðaflótta undan þessum tillögum og greindu frá því að þær hefðu ekki einu sinni verið undir þá bornar í þingflokkum stjórnarflokkanna þó að þeir ættu að bera á þeim pólitíska ábyrgð. Áður en haninn galaði þrisvar, áður en vikan var liðin, höfðu svo margir stjórnarliðar hlaupið frá tillögunum að það var alveg ljóst, og á það benti ég í þingsal, að fyrir málinu var ekki lengur pólitískur meiri hluti. Þá var farið að draga til baka. Reyndar var búið að skemma mjög fyrir þessum heilbrigðisstofnunum með því að setja þær í mikla óvissu. Engu að síður var farið að draga tillögurnar til baka til að koma þessu í gegn svo að fjárlagafrumvarpið næði hreinlega samþykki á Alþingi.

En það var eins og menn hefðu ekkert lært og öllu gleymt því að þegar fjárlagafrumvarpið birtist okkur í haust var aftur tekið til við að höggva í sama knérunn, ráðast á sömu stofnanirnar og menn höfðu gefist upp við að höggva eins mikið í og ætlunin var í upphafi á síðastliðnu hausti. Það voru til dæmis stofnanir á Ísafirði, á Sauðárkróki, Húsavík, Landspítalinn og áfram mætti telja. Ég nefni þetta bara hreinlega í dæmaskyni.

Þá eru lagðar fram tillögur um tiltekinn niðurskurð og enn og aftur er sagt að þær þurfi að endurskoða. Þær endurskoðuðu tillögur komu síðan fram við 2. umr. málsins. Og til að kaupa sér leið með fjárlagafrumvarpið í gegnum þingið var aftur kosið að bæta við einhverjum upphæðum á völdum stöðum til að tryggja að fjárlagafrumvarpið yrði samþykkt, því að þá lá fyrir hótun frá einum stjórnarliða um að stuðningur hennar við 2. umr. væri meðal annars byggður á því að bætt yrði í á þessu sviði og að bregðast yrði við.

Ég nefndi áðan að það væri dálítið sérkennilegt hvernig að þessum málum væri staðið. Ég ætla að taka dæmi sem ég kom inn á í mýflugumynd við 2. umr. málsins, vegna þess að það er mjög glöggt dæmi um hvernig þessi mál hafa verið unnin. Ég ætla að taka sem dæmi Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki.

Þegar fjárlagafrumvarpið, sem nú er bráðum að verða að fjárlögum, var lagt fram 1. október blasti við Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki tæplega 63 millj. kr. niðurskurðarkrafa. Stofnunin reyndi að útfæra þennan niðurskurð og embættismenn ráðuneytisins skiluðu frá sér skýrslu, sem skrifuð var af aðstoðarmanni hæstv. velferðarráðherra, þar sem skoðað var hvort í rauninni væri hægt að ná þessum 63 millj. kr. niðurskurði Og hvað kom í ljós?

Þetta er allt saman sundurliðað mjög skilmerkilega í skýrslunni. Það blasir við að að mati skýrsluhöfundar er mögulegt að ná sparnaði upp á 21 millj. kr. Það er talið mjög hæpið að ná viðbótarsparnaði upp á tæplega 21 millj. kr. Loks er sagt hreinlega ófært að ná sparnaði upp á 17,1 millj. kr. Þannig er staðan. Hið faglega mat sem aðstoðarmaður velferðarráðherra skrifar upp á, og við hljótum að líta svo á að sé þá uppáskrifað af ráðuneytinu sjálfu, sýnir að hugmyndirnar um 63 millj. kr. sparnað á þessari stofnun voru hreinlega út í bláinn, það var ekkert á bak við þær. Þetta var bara einhver tala á blaði — engin greining, ekkert faglegt. Menn höfðu haft tímann frá því í fyrra, frá því að menn voru sem betur fer gerðir afturreka með þessi niðurskurðaráform, en gera síðan ekki betur en að leggja fram tillögur sem að 2/3 eru ýmist taldar hæpnar eða ófærar.

Nú hefði maður haldið að þegar þessi greining lægi fyrir, uppáskrifuð af ráðuneytinu sjálfu, fengjum við viðbrögð sem fælu í sér að niðurskurðarkrafan svaraði að minnsta kosti ekki til meiru en þess sem talið væri mögulegt. Menn færu til dæmis ekki í hæpnar aðgerðir eins og að hætta algjörlega farandlæknaþjónustu eða loka endurhæfingarhúsi eða draga úr vöktum á rannsóknum og röntgen o.s.frv., ég tala nú ekki um það sem líka hefur verið rætt um svo dæmi sé tekið, að hætta heimahjúkrun um helgar, sem reyndar er talin ófær leið. En því er ekki að heilsa. Þegar við höfum afgreitt þetta fjárlagafrumvarp, miðað við þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir og eru endanlegar, er ljóst að stofnunin mun eftir sem áður sitja uppi með 40 millj. kr. hagræðingarkröfu, sem þýðir á mæltu máli að hún þarf að grípa til aðgerða sem ráðuneytið telur að minnsta kosti hæpnar og kannski ófærar. Þetta verð ég að segja eins og er að geta ekki talist fagleg vinnubrögð. Þetta er ekki viðunandi.

Það verður þó að segja einstökum þingmönnum stjórnarliðsins til hróss að þeir eru strax farnir að hafa efasemdir. Einn þeirra sem skrifar upp á nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar, fjárlaganefndarmaðurinn hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, tók til máls í dag og hafði orð á því hvernig staðan væri orðin í heilbrigðismálum víða á landsbyggðinni og rakti það með ýmsum hætti.

Hann segir í upphafi máls síns — og mig minnir að ég hafi heyrt hv. þingmann tala með svipuðum hætti áður — með leyfi virðulegs forseta:

„Hæstv. forseti. Þegar við þingmenn fjöllum um fjárlög koma tölur upp í hugann en auðvitað ætti það að vera svo að fólk komi fyrst og fremst upp í hugann þegar fjárlög eru annars vegar.“

Hann vísar síðan til svars sem hann fékk við fyrirspurn og taldi lýsa hraklegu ástandi heilbrigðismála víða úti um land og hann hvatti í raun og veru til þess að horfið væri af þeirri braut. Þegar ég hlustaði á þessa ræðu kom upp í huga minn að yfirleitt er of seint að iðrast eftir dauðann. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki trúað eigin tillögum sem liggja fyrir í skjalfestu formi á þskj. 466, nefndaráliti um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012.

Ég ætla að víkja að öðru máli sem ég sakna mjög að ekki sé tekið til meðhöndlunar á neinn hátt í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Ég kallaði eftir því við afgreiðslu tillagna við 2. umr. málsins að sérstaklega yrði horft til málefna framhaldsskólanna, ekki síst á landsbyggðinni. Fram hafa komið mjög alvarlegar athugasemdir frá skólameisturum og stjórnendum ýmissa framhaldsskóla á landsbyggðinni þar sem þeir benda á að ýmislegt í því sem lagt er til grundvallar við útreikning fjármuna til skólanna standist ekki frekari skoðun. Vísað er til þess fræga reiknimódels sem hefur í raun verið bitbein alveg frá því að ég man eftir mér hér á Alþingi, og er það allnokkur tími. Alltaf hefur manni verið talin trú um að þetta sé alveg að koma og standi allt saman til bóta. Engu að síðu benda skólameistararnir á alvarlega hluti sem munu gera að verkum að skólarnir verða mjög illa rekstrarhæfir og þeir þurfi að grípa til mjög afdrifaríkra aðhaldsaðgerða. Þeir vekja m.a. athygli á því að ekki sé tekið tillit til sérstöðu verknámsskólanna þegar fjármunum er úthlutað til skólanna. Þeir vekja athygli á aldurssamsetningu kennara og að með hækkandi starfsaldri kennara minnki kennsluskyldan og ekki sé tekið tillit til þess þegar deilt er út fjármunum til skólanna. Þeir vekja athygli á að fækkun íbúa, bæði á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, leiði af sér fækkun nemenda, og að fækkun nemenda komi líka til vegna þess að stofnað hafi verið til nýrra skóla í nágrenninu sem geri að verkum að rekstrarforsendur skólanna sem fyrir voru hafi gjörbreyst. Ég þarf í sjálfu sér ekki að rekja þetta nákvæmlega. Það eru einnig sérstakar aðstæður í skólum sem hafa fengið greidd nemendaígildi vegna kennslu 10. bekkjar nemenda í framhaldsskólum. Ég nefni í því sambandi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, en frá þessu er núna horfið. Ég hefði því talið eðlilegt að tekið yrði á þessu með einhverjum hætti og þó ekki væri nema eytt nokkrum orðum að þeim áhyggjum sem skólameistararnir hafa vegna þessara mála.

Ég ætla að vekja athygli á þeirri stöðu sem er til dæmis uppi hjá Menntaskólanum á Ísafirði. Fjárheimildir til skólans hafa lækkað frá 2007 um 24% að raungildi, að mati skólameistara. Hann vekur athygli á til hvílíkra örþrifaráða farið er að grípa. Íþróttakennari sem nú er í 100% stöðu mun hætta vegna aldurs á haustönn 2012. Í hans stað er gert ráð fyrir að ráða íþróttakennara í 50% starf. Þetta finnst mér lýsandi um þá stöðu sem þessir skólar eru í. Það sem er svo alvarlegt er sú staðreynd að þetta gerir einmitt að verkum að námsframboðið í þessum skólum á landsbyggðinni minnkar. Hvað þýðir það? Það þýðir að áhugi og vilji nemendanna til að fara í þessa skóla minnkar að sama skapi. Þeir kjósa auðvitað að fara heldur þangað þar sem námsframboðið er meira og gefur þeim meiri möguleika þegar þeir hyggja seinna að frekara námi, háskólanámi eða öðru framhaldsnámi. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni. Menn verða að átta sig á því, af því að hér voru menn meðal annars að tala um byggðaleg áhrif fjárlagafrumvarpsins, að svona hlutir leiða til þess að byggðirnar veikjast smám saman og ég vísa þá meðal annars til byggðarlaga sem hafa mátt þola íbúafækkun á undanförnum árum.

Ég fullyrði eitt og það er þetta: Þær tölur sem ég vísa í varðandi þessa tilteknu framhaldsskóla eru ekki stóru tölurnar í fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru engar tillögur á borð við þau framlög sem Fjármálaeftirlitið lætur skenkja sér frá Alþingi eins og allir vita.

Eitt mál langar mig að nefna áður en ég lýk máli mínu, sem lítið hefur verið rætt hér í fjárlagaumræðunni og er algjörlega óskylt þessum tveimur málum sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni, annars vegar heilbrigðismálunum á landsbyggðinni og hins vegar stöðu framhaldsskólanna. Hér er ég að vísa til skógræktarinnar í landinu. Af hverju skyldi ég vísa til þess? Jú, meðal annars vegna þess að núna liggur fyrir Alþingi mikil tillaga til þingsályktunar um hið svokallaða græna hagkerfi. Að því máli standa fulltrúar allra stjórnmálaflokka, þó að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti og fleiri hygg ég, hafi gert ákveðna fyrirvara sem skipta miklu máli. Það er nú til umræðu í atvinnuveganefnd Alþingis. Málið hefur fengið jákvæð viðbrögð frá nefndarmönnum sem hafa lýst áhuga sínum á að vinna málið vel og efnislega og ljúka því einhvern tíma fyrir vorið. Allt gengur þetta út á að efla hinn græna hluta hagkerfisins og ætla ég í sjálfu sér ekki að fara mörgum orðum um það.

Þá skýtur dálítið mikið skökku við sú áhersla sem kemur fram frá framkvæmdarvaldinu í tillöguformi til Alþingis sem við alþingismenn höfum samþykkt um verulegan niðurskurð á framlögum til landshlutabundinna skógræktarverkefna. Landshlutabundnu skógræktarverkefnin eru samningsbundin verkefni sem ríkisvaldið fjármagnar með ákveðnum samningum við bændur sem standa svo fyrir skógrækt, girðingum, landbótum og þess háttar. Þetta er því auðvitað atvinnuskapandi, byggðatengt, þetta er umhverfisvænt og hefur alls konar jákvæðar afleiðingar í för með sér.

Ég er ekki saklaus í þessum efnum. Ég lagði sjálfur til lækkun á framlögum til skógræktarinnar haustið 2008 til að bregðast við þeim vanda sem uppi var eftir efnahagshrunið. Hins vegar var öllum ljóst og mjög um það rætt að í sjálfu sér væri hægt að framkvæma slíkan niðurskurð um eins árs skeið, kannski tveggja ára skeið, en um leið og tíminn yrði mikið lengri færi niðurskurðurinn að hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þeir sem rækta græðlinga komast til dæmis í mikinn vanda, bændur sem hafa gert þessa samninga sömuleiðis og árangurinn af skógræktinni hrynur niður.

Í minnisblaði sem okkur í atvinnuveganefnd var afhent 1. desember síðastliðinn er vakin á því athygli að skógræktin hefur verið skorin niður um 40% frá árinu 2008 á föstu verðlagi, 40% niðurskurður. Þetta er gríðarlega mikill niðurskurður, miklu meiri en svarar til almennu aðhaldsmarkmiðanna sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið t.d. hefur orðið að lúta. Hér er því greinilega um að ræða pólitíska stefnumótun.

Ég hafði ímyndað mér að þegar sú staða væri uppi að hið græna hagkerfi væri til meðhöndlunar á Alþingi, og því tekið með miklum húrrahrópum og fagnaðarlátum í þinginu, mundu menn láta að minnsta kosti staðar numið. En því var ekki að heilsa. Við 2. umr. fjárlaga var kynnt breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar um 5,5% frekari niðurskurð á þessum verkefnum. Þessi breytingartillaga var hins vegar kölluð aftur til 3. umr. Nú vil ég spyrja hv. formann nefndarinnar sem ég tók eftir að hefur beðið um orðið í andsvörum: Hver er staða þessa máls? Liggur fyrir að þessi breytingartillaga verði kölluð aftur, að eilífu amen, við atkvæðagreiðsluna á morgun eða er ætlun meiri hluta fjárlaganefndar að knýja fram ákvörðun um 5,5% niðurskurð á skógræktarverkefnum ofan í þann 40% niðurskurð sem skógræktin hefur mátt lúta frá árinu 2008? Ég veit að þetta er ekki eitt af stóru málunum í hugum flestra þegar verið er að ræða um fjárlögin en þetta skiptir máli. Þetta er byggðamál, þetta er atvinnumál, landbúnaðarmál, umhverfismál og það varðar þúsundir manna um allt land. Þess vegna vildi ég áður en ég lyki máli mínu víkja að þessu atriði, líka vegna þess að ég hafði séð að það hafði ekki komið hér til umræðu.

Að lokum, af því að ég á eftir tvær og hálfa mínútu, kemst ég ekki hjá því að nefna mál sem ég hef haldið mjög á lofti og það er hvernig nú er farið með aukaframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Eins og allir vita voru þessi aukaframlög hér fyrr meir eða eiginlega fram á síðasta ár meira og minna hugsuð til að koma til móts við sveitarfélög sem höfðu orðið fyrir tekjuskerðingu, m.a. vegna fólksfækkunar. Á árinu 2009 fengu til dæmis sveitarfélög eins og Breiðdalshreppur 9,2% af heildartekjum sínum úr þessu aukaframlagi, Djúpavogshreppur 6%, Fjallabyggð 5,2%, Tálknafjarðarhreppur 6,8%, Vesturbyggð 8,1%. Í fyrra var tekið upp á því að láta þetta frekar ná til sveitarfélaga sem skulduðu mikið. Þá breyttist samsetningin en engu að síður fengu sveitarfélög eins og Breiðdalshreppur 7% af tekjum sínum úr þessu framlagi, Fjallabyggð rúmlega 6%, Ísafjarðarbær 4,6% og Skaftárhreppur 5,7%, svo ég taki dæmi.

Ég hef gagnrýnt mjög harðlega að tekin var um það pólitísk ákvörðun af ríkisstjórninni að nýta skert fé aukaframlagsins á þessu ári þannig að helmingur þess fjármagns, að vísu tæplega helmingur eftir breytingar sem gerðar voru í fjáraukalögum, rynni til eins sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Álftaness, sérstaklega í ljósi þess að stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eins og Hafnarfjörður og Kópavogur fengu í fyrra drjúgan hluta af þessum fjármunum, Hafnarfjörður rúmlega 90 millj. kr. og Kópavogur rúmlega 40 millj. kr. Síðan er haldið áfram, höggvið í sama knérunn, því gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að á næsta ári verði þessi fjárveiting enn skorin niður um helming, úr 700 millj. kr. eins og var upphaflega en endaði í 800 millj. kr. með fjáraukanum, niður í 350 millj. kr. og síðan öllu lokið á árinu 2013.

Þetta verður mikið reiðarslag fyrir til dæmis þau sveitarfélög sem ég nefndi. Mér finnst þetta ekki rétt forgangsröðun, ekki rétt skilaboð og alls ekki réttar áherslur í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að standa þannig að málum að höggva sérstaklega í þau sveitarfélög sem þurfa mest á því að halda að fá þessi aukaframlög.