140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa margir talað um mikilvægi þess að ná hagvexti í gang. Því er ég sammála. Það er kannski ekki maklegt að koma inn í andsvar við þennan hv. þingmann, herra forseti, en ég ætla að koma því að að talað er um að ná þurfi fjárfestingu í gang, þá fáum við inn tekjur og þá verði þetta okkur auðveldara. Því er ég sammála.

En hvað blasir við okkur? Það var farið hér í framkvæmdir, t.d. við Kárahnjúkavirkjun, sem kemur á daginn nú nokkrum árum síðar, rétt eins og margir bentu, á að skilar ekki þeirri arðsemi sem hún hefði átt að skila fyrir þjóðina en olli hér hagvaxtarþenslu sem bjó til algjörlega óeðlilega umgjörð um ríkisfjármálin. Það er ofan af þeirri vitleysu sem við erum að snúa við hörmulegar aðstæður.

Þá vil ég líka benda á það að í framhaldsskólunum, sem eru að takast á við mjög erfiðan niðurskurð, er jafnframt verið að setja inn fé til að gefa fólki tækifæri á að mennta sig og endurmennta sem hefur dottið út af vinnumarkaði, fólki sem í góðærinu á Íslandi var boðinn framhaldsskóli sem gat ekki haldið utan um nemendur sína svo að þeir duttu allir út úr námi.

Við erum ekki eingöngu að takast á við niðurskurð vegna skuldasöfnunar sem kemur til af halla og gjaldþroti Seðlabankans og fleiri stofnana, við erum líka að takast á við pólitísk mistök fyrri stjórnvalda. Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti á hér áðan varðandi fangelsisbygginguna eru fræðslumálin annað slíkt dæmi. Ég ætla bara að biðja hv. þingmenn að hafa það í huga og hafa aðeins meiri þolinnmæði (Forseti hringir.) gagnvart þeim erfiðu verkefnum sem við erum í.