140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Við deilum ekki alveg sömu sýn á stöðunni eða árangrinum og það er bara eins og það er.

Það eru tvær spurningar sem mig langar að bera upp við hv. þingmann.

Sú fyrri er þannig að á landsfundi Vinstri grænna ekki alls fyrir löngu var ályktað meðal annars um heilbrigðiskerfið. Þar segir í lokasetningu um ályktun um heilbrigðiskerfið, sem er reyndar nokkuð ítarleg, tekur á hagræðingu og öllu slíku, með leyfi forseta:

„Fundurinn hvetur til þess að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu með því að draga úr niðurskurði og byggja hana upp til frambúðar.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort frumvarpið sé í samræmi við þessa ályktun Vinstri grænna, mjög einföld spurning.

Síðan er önnur spurning. Mér þótti reyndar mjög gleðilegt að sjá hvað hv. þingmaður brást hratt við frétt því að á dv.is er viðtal við hv. þingmann þar sem hann segir frá því að ekki standi til að loka endurhæfingardeild við sjúkrahúsið á Sauðárkróki og segir það vera rangt sem hafi komið fram í frétt í sjónvarpinu og væntanlega einhver okkar hafa haldið fram. Ég vona að það sé rétt að þetta hafi verið rangt hjá okkur. Hv. þingmaður segir í þessari frétt, með leyfi forseta:

„Það hefur verið tryggt að þessari endurhæfingardeild verði ekki lokað vegna niðurskurðar í útgjöldum og stjórnendum sjúkrahússins á að vera fullkunnugt um það.“

Mig langar bara að spyrja: Hvernig hefur það verið tryggt?