140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[23:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar ef ég hef ekki verið nógu afdráttarlaus í svörum mínum áðan um hugsanleg kaup ríkisins á því sem ríkið á ekki þegar í Grímsstöðum á Fjöllum. Afstaða mín hlýtur að mótast af því hversu góð kaup þetta yrðu, hvað fengist fyrir peninginn. Sjálfsagt er hægt að gera eitthvert verðmæti úr þessu, ég þarf bara að afla mér frekari upplýsinga um það og sjá verðmiðann áður en ég get mótað mér afstöðu í því. Ég sé hins vegar enga ástæðu fyrir því að ríkið fjárfesti í því landi og mundi ekki mæla með því sjálfur. (Gripið fram í.)

Varðandi afstöðu Alþýðusambandsins og það sem sjálfstæðismenn hafa gert að sinni afstöðu í þessari umræðu væri vissulega áhyggjuefni ef sú hætta væri uppi — sem hún er ekki, að mínu mati — að þær aðgerðir sem fylgja fjárlagafrumvarpinu, sem verður vonandi samþykkt á morgun, sköpuðu einhverjar þær aðstæður að það þyrfti að rifta kjarasamningum. Mér finnst ekkert benda til þess. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan hafa stjórnvöld og ríkisstjórn gripið til margvíslegra aðgerða til að byggja undir það að þeir kjarasamningar haldi sem voru gerðir í sumar. Ég vitna til þjóðhagsspár Hagstofunnar sem kom út í lok nóvember. Þar segir meðal annars um þessi mál að ekkert bendi til annars en að forsendur kjarasamninga haldi og að þær standi. Það er hægt að fletta upp á þessu á bls. 2 í þjóðhagsspánni þar sem er fjallað um þessi mál. Ég hef ekki heyrt aðrar raddir en frá talsmönnum Alþýðusambandsins um að svo þurfi að vera. Ég hef enga trú á því sjálfur, en það væri vissulega hættumerki ef maður héldi að (Forseti hringir.) slíkt væri í spilunum og ég hef enga trú á því.