140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

breytingar á ráðuneytum.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þingmenn eru ekki með meiri getsakir um þessi mál en svo að það var sjálfur hæstv. fjármálaráðherra sem tjáði sig um það fyrr í þessari viku að það kæmi að hans áliti til greina. Reyndar taldi hann því best þannig fyrir komið að öll efnahagsmál væru í einu og sama ráðuneytinu, á einni hendi. Með því að sjálfur hæstv. fjármálaráðherra tjáir sig með þeim hætti er ekki nema von að menn spyrji sig í kjölfarið: Hvað á sér stað í samtölum forustumanna ríkisstjórnarinnar? Eða er umræðan um stöðu ríkisstjórnarinnar eingöngu um persónur en ekki málefni, þ.e. um einstaka ráðherra innan hennar?

Fyrst hæstv. forsætisráðherra gerir það að umtalsefni að engin úttekt hafi farið fram er rétt að geta þess að hún óskaði eftir því í stjórnarráðsfrumvarpinu að fá sjálfdæmi um það (Forseti hringir.) hvaða ráðuneyti væru til, hvaða ráðherrar væru í hverju þeirra og hvort það væru fleiri en einn í hverju ráðuneyti. Ekki þurfti miklar faglegar úttektir til að komast að þeirri niðurstöðu að leggja það til beinlínis í frumvarpsformi á þinginu.