140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

sameining fjármála- og efnahagsráðuneytis.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Má sem sagt skilja svör hæstv. forsætisráðherra áðan sem svo að engin ný ákvörðun hafi verið tekin um að sameina fjármálaráðuneyti og efnahagsráðuneyti vegna þess að það hafi legið fyrir frá byrjun að ríkisstjórnin vildi ráðast í slíka sameiningu? Er með öðrum orðum eingöngu um það að ræða að menn ætli að fara að framkvæma eitthvað sem þeir hafi ákveðið fyrir löngu?

Það skiptir máli að fólk fái að vita hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í þessum ráðuneytamálum vegna þess að þetta er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar. Margir hafa rekið sig á það í samskiptum við ráðuneytin að ráðherrar eiga erfitt með að taka ákvarðanir um mál vegna þeirrar óvissu sem þeir búa við og svo jafnvel hendir það að með litlum fyrirvara er skipt um ráðherra og stefnan breytist þannig að það sem menn hafa unnið að lengi í samvinnu við ráðuneyti er allt í einu fokið út í veður og vind.

Það er einmitt grundvallaratriði í vangaveltum um breytingar á ríkisstjórninni núna að menn sjá fyrir sér að þær séu til þess ætlaðar að gera grundvallarbreytingu á stefnu ríkisstjórnarinnar, m.a. varðandi Icesave-málið og aðkomu hæstv. efnahagsráðherra að því, sem hefur tekið upp nýja siði hvað það varðar og hafið umtalsvert samráð um að reyna að sigla því máli í höfn, og svo um auðlindamálið.

Spurningin er þá þessi: Er ætlunin að færa Icesave-málið aftur til hæstv. fjármálaráðherra og auðlindamálin til Samfylkingarinnar svo hún geti annast samninga við Evrópusambandið um sjávarútveg, landbúnað og annað slíkt? Þetta fæli í sér grundvallarbreytingu á þeirri nálgun sem hefur verið rekin hjá þessari ríkisstjórn að undanförnu í þessum tveimur veigamiklu málum og því er eðlilegt að menn fari fram á skýr svör við því hvort þetta standi til. Ég skil svar hæstv. forsætisráðherra hér áðan sem svo að þetta standi til og hafi gert frá upphafi.