140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

sameining fjármála- og efnahagsráðuneytis.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Það er röng ályktun sem hv. þingmaður dregur af þessu, að þetta hafi staðið til frá upphafi. Ég bið hv. þingmann að lesa stjórnarsáttmálann. Í honum segir allt sem segja þarf um hugmyndir að breytingum á ráðuneytum. Af því að minnst er á auðlindamálin bendi ég að þar er hugmyndin að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Og hún er ekkert út af borðinu, það er alveg á dagskrá að gera það.

Varðandi Icesave-málið hefur þetta nákvæmlega ekkert með það að gera og engin áform eru um neinar breytingar á því. Ég get talað enn skýrar, ég hef ekki séð nein rök fyrir því að sameina efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Ég þarf þá að fá mjög sterk fagleg rök fyrir því ef einhverjar breytingar eiga þar að verða. Ég ítreka aftur að ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um það, hvorki fyrr né nú.