140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

sameining fjármála- og efnahagsráðuneytis.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta var óvenjuskýrt svar hjá hæstv. forsætisráðherra. Annars vegar er áréttað að til standi að sameina auðlindamálin í nýtt ráðuneyti og að það hafi lengi staðið til. Þá ætla menn væntanlega ekki að hverfa frá því að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eins og lengi virðist hafa verið markmiðið hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar segist hæstv. forsætisráðherra, ef ég skil ráðherrann rétt, ætla að halda hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í starfi sínu og halda Icesave-málinu hjá honum. Þetta gengur þvert á það sem hæstv. fjármálaráðherra lýsti yfir, að hann teldi að sameina ætti þessi tvö ráðuneyti. Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra. Er samkomulag um þá niðurstöðu í ríkisstjórninni að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði settur út úr ríkisstjórn en hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sitji þar áfram?