140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

sameining fjármála- og efnahagsráðuneytis.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú spyr ég hv. þingmann hvort hann ætlist virkilega til þess að ég gefi þinginu, og honum fyrstum, svar við því hvaða hugmyndir eru uppi um breytingar á ráðherrum. (Gripið fram í: Já.) Auðvitað er það fyrst rætt í þingflokkunum sjálfum en ekki úr ræðustól Alþingis. Hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því.

Síðan er ég mjög hissa á því að það sé eitthvað nýtt í eyrum hv. þingmanns að hér eigi að styrkja umhverfisráðuneytið og stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þetta hefur staðið í stjórnarsáttmálanum allan tímann þannig að þingmaðurinn hefði bara getað flett upp í honum.

Síðan liggur alveg fyrir varðandi efnahagsráðuneytið að það var fyrsta verkefnið sem við fórum í vegna þess að það var talið að það hefði verið mjög óheppilegt, og kannski ein af ástæðum hrunsins, að dreifa efnahagsmálunum á mörg ráðuneyti. Ég hef síðan engu við það að bæta sem ég hef hér sagt (Gripið fram í: Eru þetta faglegu rökin?) og það mun auðvitað koma í ljós (Forseti hringir.) hvaða niðurstaða verður að því er varðar ráðuneyta- og ráðherrabreytingar.