140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

hagvöxtur.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hélt satt að segja þegar hv. þingmaður byrjaði ræðu sína að hann ætlaði að fagna því sem fram kom í fréttum í morgun, að hagvöxtur hefði aukist og væri núna með því hæsta í heimi. Það kom fram. Hv. þingmaður sá hins vegar enga ástæðu til að gleðjast yfir því, (Gripið fram í.) heldur bara nöldrar í ræðustóli.

Það hlýtur að vera gleðiefni þegar hagvöxtur mælist 3,7% síðustu níu mánuðina og sé síðan milli tveggja ársfjórðunga kominn í 4,7%. Hann er ekki bara neysludrifinn, hann er líka drifinn af auknum útflutningi og fjárfestingin er sem betur fer að aukast á ýmsum sviðum. Þar hefur meðal annars ríkisstjórnin lagt sitt til málanna til að auka hagvöxt og það vantar að atvinnulífið komi meira inn í það til að auka hann.

Við sjáum að í ferðaþjónustunni er verið að gera mjög góða hluti og við fáum verulegt fjármagn inn í þjóðarbúið í gegnum hana. (Gripið fram í.) Við sjáum að hugbúnaðariðnaður hefur tekið vel við sér og þar vantar eiginlega meiri mannskap en hitt. Ýmsar fjárfestingar í opinbera geiranum eru í fullum gangi sem munu líka auka hagvöxtinn. Auðvitað tek ég undir með hv. þingmanni að það væri miklu æskilegra að hagvöxturinn væri meira drifinn af fjárfestingum en af neyslu, sem hann hefur verið, en ég tel að það séu allgóðar líkur á því að hann taki vel við sér og ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýn að halda því hér fram að við munum ná þeim hagvexti sem til dæmis kjarasamningarnir byggðu á, að hann verði 4–5% á árinu 2013.

Hvaða hagvöxtur er í gangi hjá þjóðunum í kringum okkur? Er hann ekki um eða undir 1%? Við eigum að gleðjast (Forseti hringir.) yfir því að við sjáum hér aukinn hagvöxt, að hjól atvinnulífsins séu farin að snúast og atvinnuleysi minna en verið hefur. Við erum að auka allar virkniaðgerðir og aðgerðir til að koma fólki af atvinnuleysisskrá.