140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

útgreiðsla til Icesave-kröfuhafa.

[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það voru að mörgu leyti ánægjulegar fréttir í morgun af innborgunum vegna þessa ólukkans Icesave-máls. Fréttir greina frá því að um 432 milljarðar kr. hafi verið greiddir upp í forgangskröfur, þ.e. sem nemur nærri einum þriðja af þeim kröfum. Verður að segjast eins og er að það er ánægjulegt að sjá hversu mikil útborgun átti sér stað núna.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ráðherrann sé sammála mér um að þessi áfangi sé mikilvægur. Einnig væri forvitnilegt að heyra hvernig ráðherrann sjái fyrir sér að haldið verði á málinu áfram. Það er mjög mikilvægt að halda þeirri stefnu sem búið er að marka núna með Icesave-málið. Ég held að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi haldið mjög vel á málinu eftir að það kom í hans hendur. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvort hann sjái fyrir sér að við munum halda áfram á sömu braut, fylgja nokkuð fast eftir þeirri stefnu sem við höfum núna markað varðandi Icesave-málið og sem langflestir eru vonandi sammála um að sé farsæl fyrir Ísland. Það væri forvitnilegt að heyra hvernig ráðherrann sér þetta mál fyrir sér.