140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

útgreiðsla til Icesave-kröfuhafa.

[15:22]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það var vissulega mikill áfangi í morgun þegar slitastjórn Landsbankans greiddi út. Þetta eru engar smáfjárhæðir og mikilvægt að þjóðin átti sig á því að hérna er um ríflega 80% af fjárlögum ríkisins að ræða sem fara til kröfuhafanna í þessari umferð.

Það sem skiptir miklu máli er að þetta hjálpar okkur í öllum okkar málflutningi á erlendum vettvangi. Það er mjög mikilvægt að menn sjái að athafnir fylgja orðum, að við segjumst ekki bara ætla að borga heldur fari peningarnir til kröfuhafanna. Við höfum lagt á það áherslu að það sé engin forsenda til að halda áfram með þetta Icesave-mál fyrir dómstólum og við höfum sagt við Eftirlitsstofnun EFTA að það eigi að fella málið niður því að það séu engin rök fyrir því að þetta mál eigi að ganga lengra á forsendum Evrópuréttar, það sé ekki hægt að byggja neina skyldu á þeirri tilskipun sem þar um ræðir og að málið eigi að fella niður. (Gripið fram í.) Við munum setja þessi skilaboð enn og aftur fram og við munum núna koma upplýsingum um útgreiðslurnar á framfæri við Eftirlitsstofnun EFTA, einnig upplýsingum um hæstaréttardóminn um daginn. Það sem Hæstiréttur gerði hjálpar okkur líka í þessari málsvörn (Gripið fram í.) vegna þess að Hæstiréttur dæmdi hinum tryggðu innstæðueigendum tiltekna vexti og þá er ekki hægt að halda því fram að krafan beri enga vexti. Hún ber vexti. Þeir eru ekkert sérstaklega háir, en það eru viðurkenndir vextir (Gripið fram í.) af Hæstarétti í dómnum fyrir fyrsta hálfa árið frá því að Landsbankinn fór í þrot og til 22. apríl 2009.

Í tilviki Hollendinga eru þetta 6% vextir. Sú tala dreifð yfir nokkur ár er ekkert sérstaklega há fjárhæð en þetta er að minnsta kosti ekki dautt fé (Forseti hringir.) og það er ekki eins og það sé feitan gölt að flá í vöxtum af ríkisskuldabréfum í Evrópu þessa stundina. Allt styður þetta okkar málstað um að ekki eigi að halda frekar áfram með málið.