140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

útgreiðsla til Icesave-kröfuhafa.

[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna og svörin. Ég er algerlega sammála ráðherra, það er engin ástæða til að halda áfram með málið með þeim hætti sem hefur verið „presenteraður“ hér áður vegna þess að það er í sjálfu sér ekkert mál uppi ef við erum að greiða til baka þessar meintu skuldir og það með vöxtum.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að aftast í fjárlagafrumvarpinu sem við ætlum að greiða atkvæði um á eftir er að mínu viti mjög undarlegur kafli um óbeinar skuldbindingar. Ég hefði haldið að sá kafli ætti ekki að vera eins og hann er í ljósi þess sem hæstv. ráðherra upplýsti og í ljósi þeirrar almennu vitneskju sem við eigum öll að hafa um þetta mál.

Það væri fróðlegt að vita ef hæstv. ráðherra hefur það hjá sér, ég geri mér grein fyrir að það er ekki víst að það liggi alveg fyrir, hversu mikið af þessum 432 milljörðum var greitt út í krónum. Hitt er hins vegar mjög mikilvægt fyrir okkur, og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirlýsingu, að hvika hvergi frá þeirri baráttu og þeirri stefnu sem nú hefur verið mörkuð í þessu máli.