140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

launamunur kynjanna.

[15:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það kemur fram í nýrri kjarakönnun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga að laun kvenna lækka. Lækkunin nemur 1,9% en á heildina litið hækka laun félagsmanna í Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Í tilkynningu um þessa könnun er talað um að athygli veki að í fyrsta sinn lækka laun kvenna. Lækkunin nemur 1,9% og er miðgildi þeirra núna 554 þús. kr. Laun karla halda áfram að hækka og nemur hækkunin í ár um 1,7%. Miðgildið er nú 661 þús. kr. á mánuði. Þegar ekki er tekið tillit til annarra þátta mælast því karlar með 19% hærri laun en konur. Þegar launamunur kynjanna er svo leiðréttur, segir í könnuninni, með tilliti til fleiri þátta eins og aldurs, fjölskyldustærðar, menntunar, starfsreynslu og starfsvettvangs kemur í ljós að launamunur kynjanna eykst verulega frá fyrri mælingum.

Ég held að þetta séu alvarleg tíðindi og þetta eru tíðindi sem menn og konur innan ríkisstjórnar hljóta að taka alvarlega. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki hringi einhverjar jafnréttisbjöllur, eða er slokknað á þeim hjá hæstv. ráðherra? Ég segi þetta ekki að ástæðulausu því að við sjáum þróun á fæðingarorlofinu á þann veg að það er ekki lengur það jafnréttistæki sem það átti upphaflega að vera. Það hefur eyðilagst í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvað finnst ráðherra um niðurstöðu þessarar kjarakönnunar Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga? Hvað ætlar forsætisráðherra að gera til að berjast gegn þessum launamun? Hann birtist ekki bara í þessari kjarakönnun heldur líka milli kynjanna innan opinbera geirans.