140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

launamunur kynjanna.

[15:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka forsætisráðherra fyrir svarið og líka, sem var greinilega hennar einlæga skoðun, að hún deilir áhyggjum okkar í stjórnarandstöðu af þessari þróun. Það verður að segja það alveg hreint út að hver mælistikan á fætur annarri er að birtast, og hún birtist okkur í þá veru að það er halli núna í jafnrétti kynjanna, þ.e. það hallar á konur. Launamunur kynjanna eykst, ekki bara innan opinbera geirann heldur líka innan einkageirans eins og þessi kjarakönnun Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sýnir okkur greinilega. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að fylgja eftir jafnréttislögum og fylgja þessu máli áfram. Hún er oddviti ríkisstjórnarinnar, ábyrgð hennar er mest hvað þetta mál varðar. Við megum ekki sofna á þessari vakt og því miður verð ég að ítreka aftur að í tíð þessarar vinstri stjórnar hefur jafnrétti kynjanna hrakað. Þannig er það bara.

Launamunur kynjanna er að aukast. (Forseti hringir.) Það segir okkur núna hver könnunin á fætur annarri, en í lokin þakka ég aftur fyrir svör forsætisráðherra.