140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

launamunur kynjanna.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þessi ríkisstjórn mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að taka á þessum málum. Það snýr þó líka að aðilum vinnumarkaðarins að taka á í því að koma hér á meira jafnrétti í launamálum kynjanna. Það á ekki síður að beina spjótum sínum, og ég vona að hv. þingmaður sé að hlusta, að Samtökum atvinnulífsins og atvinnulífinu í landinu því að þetta sem hv. þingmaður er að nefna snýr að atvinnulífinu. Við getum frekar unnið á þeim málum sem snúa að opinberum starfsmönnum, og við erum að því. Vel má vera að jafnlaunastaðallinn geri sitt í þessu máli, en ég tel fullt tilefni (Gripið fram í.) til þess, að gefnu tilefni út af þessari könnun, að á næsta fundi ráðherranefndar um jafnréttismál muni hún kalla til sín fulltrúa úr Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga til að fara yfir þessa könnun. Ég held að það (Forseti hringir.) skipti máli að heyra sjónarmið þess félags í þessu máli og hvaða leiðir það sér til úrbóta.

Ég ítreka að þetta snýr líka að atvinnulífinu sjálfu og Samtökum atvinnulífsins. Ég tel að hv. þingmaður eigi líka að beina sjónum sínum að þeim (Forseti hringir.) og koma þessu á framfæri við þau.