140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir samstarfið í fjárlaganefnd. Þau fjárlög sem við ræðum núna eru því miður því marki brennd að þau bera sama svip og fyrri fjárlög, þ.e. við glímum hér við og horfum á dulinn halla sem ríkisstjórnarmeirihlutinn reynir að halda utan við þá fjárlagagerð sem hér liggur fyrir. Það er þó ekki það alvarlegasta í þessu máli heldur efndir þeirra loforða sem stjórnarflokkarnir gáfu kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar.

Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna heita þeir því að áhættumat verði ávallt lagt til grundvallar öllum áætlunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og að leggja mat á áhrif þeirra aðgerða sem þeir grípa til til lengri tíma. Jafnframt ætla þeir að leggja áherslu á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Því miður hafa stjórnarflokkarnir ekki efnt þessi vilyrði sín.

Þetta fjárlagafrumvarp ber þau einkennisorð að það er skattað og skorið niður (Forseti hringir.) í stað þess að hlúa að eða byggja upp.