140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:43]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Við atkvæðagreiðslu við 3. umr. gilda ákvæði 41. gr. þingskapa. Þegar umræðunni er lokið fer fram atkvæðagreiðsla um fram komnar breytingartillögur en síðan um frumvarpið í heild, svo breytt, eftir atvikum.

Breytingartillögur nú eru óvenjumargar. Forseti hyggst því, til að stytta atkvæðagreiðsluna, bera breytingartillögur upp eftir þingskjölum og fylgja númeraröð þingskjalanna. Fyrst verða bornar upp breytingartillögur við tekjuhluta, þ.e. Sundurliðun 1, síðan við útgjaldahluta, Sundurliðun 2, og loks breytingartillögu við 6. gr.

Það er venja á Alþingi að víkja að nokkru frá almennum reglum um uppburð breytingartillagna, einkum til þess að tillögur komist til atkvæðagreiðslu en sé ekki vísað frá. Á þetta einkum við um breytingartillögur minni hluta eða einstakra þingmanna. Svo verður til dæmis gert við tekjuhlutann á eftir. Með þessu móti ættu flutningsmenn breytingartillagna að fá fram sérstöðu þingsins til þeirra breytinga sem þeir leggja til.

Forseti mun verða við óskum um sératkvæðagreiðslu um einstaka liði á skjölum eftir því sem fært er við atkvæðagreiðsluna, einkum frá þeim sem tillögurnar flytja og forseti hefur þegar fengið tillögurnar frá flutningsmönnum.