140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar eigum mikilvægan varasjóð í séreignarsjóðum landsmanna og það er auðvitað ekki hægt að útiloka að grípa þurfi til hans, til að mynda ef við yrðum fyrir sérstökum nýjum áföllum vegna stöðunnar á heimsmörkuðunum eða til sérstakra tekjuskapandi verkefna. En að leggja til að seilast í varasjóðinn til að fresta því að takast á við hallarekstur ríkissjóðs er að mínu áliti ekki forsvaranlegt.

Ég vil fá að nota þetta tækifæri til að greina frá því, vegna þess að við nýtum auðvitað séreignarsjóðina að sínu leyti í fjárlagafrumvarpinu, að við í efnahags- og viðskiptanefnd leitum nú leiða til að standa þannig að þeim breytingum á inngreiðslum í séreignarsjóðina að meginregla geti orðið að menn dragi tímabundið úr sparnaði sínum í því sambandi en auki hana síðan aftur að lokinni þessari tímabundnu ráðstöfun til að varðveita sem best þetta mikilvæga kerfi okkar til uppbyggingar sparnaðar í landinu.