140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við sjálfstæðismenn munum sitja hjá við afgreiðslu tekjugreinar fjárlaga. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að einhvern veginn verður að fjármagna ríkissjóð þannig að við setjum okkur ekki upp á móti þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Það eru hins vegar engin takmörk fyrir hugmyndaauðginni í skattheimtunni af hálfu núverandi ríkisstjórnar. Nú er nýbreytnin sú að áform eru uppi um skattar séu í hring, þótt ekki sé nefnt nema það dæmi sem lýtur að væntanlegri skattlagningu lífeyrissjóða. Bróðurparturinn af þeim útgjöldum sem þar koma til með að falla til mun lenda á ríkissjóði í gegnum Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Takmörkin virðast því nánast engin þegar kemur að því að reyna að skatta sig út úr vandanum. Við höfum lagt allt aðrar áherslur í því að reyna að breikka og stækka skattstofnana og fá meiri tekjur á þeim grunni í stað þess að ganga endalaust í sama upprunann. Það er helstefna og við sjáum afraksturinn af því (Forseti hringir.) í ástandinu í atvinnumálum landsins.