140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við vitum ekki margt um þessi fjárlög. Við vitum ekki hvort hallinn verður 20 milljarðar eða 60 milljarðar. Við vitum afskaplega lítið um skattana annað en það sem komið hefur fram í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar, að allir sem eru með 217 þús. kr. í mánaðarlaun eða meira fái skattahækkanir. Það eru væntanlega ekki nýjar álögur en það eru örugglega nýjar álögur þær hugmyndir um fjársýsluskatt sem komið hefur mjög skýrt fram að muni sjá til þess að hér verði ekki til minni fjármálastofnanir. Þær muni sjá til þess að ekki verði til sparisjóðir hér á landi og að sérstaklega konur muni missa störfin. Við höfum ekki komist að neinni niðurstöðu um það þó að við samþykkjum þetta hér. Við höfum ekki skoðað hvaða áhrif auknir eignarskattar muni hafa og hvaða áhrif það muni hafa að fólk flytji úr landi út af því, eins og kom fram í umfjöllun nefndarinnar. Við höfum ekkert skoðað hvaða áhrif það hefur, virðulegi forseti, eins og það er orðað af BSRB til dæmis, að eyðileggja viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið. Þannig er það orðað af helstu umsagnaraðilum. Hvaða áhrif (Forseti hringir.) mun það hafa á almannatryggingakerfið í nánustu framtíð?