140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að greiða þessari tekjugrein fjárlagafrumvarpsins atkvæði mitt og með góðri sannfæringu. Ég fullyrði að upplýsingar dagsins, gögn frá Hagstofunni, styrkja mjög tekjugrunn þessa fjárlagafrumvarps og ég undrast þá umræðu sem hér er uppi í atkvæðaskýringum að reyna að tæta það allt saman niður og gera það ótrúverðugt. Einhvern tíma hefðu menn látið það eftir sér að gleðjast yfir minna en því að á Íslandi væri einhver mesti hagvöxtur sem fyrirfinnst meðal efnahagslega þróaðra ríkja.

Landsframleiðslan hefur aukist að raungildi um 3,7% fyrstu níu mánuði ársins borið saman við sömu mánuði í fyrra. Vöxturinn á þriðja ársfjórðungi er 4,7%, árstíðaleiðréttur, og meiri ef það er ekki gert. Þessi vöxtur er vissulega borinn uppi af kraftmikilli einkaneyslu, enda hafði hún dregist mikið saman, og eru menn þá óánægðir með það að heimilin geti látið meira eftir sér? En það er líka mjög ánægjulegt að sjá að hagvöxturinn er drifinn af kraftmikilli útflutningsstarfsemi og 13% aukningu í atvinnuvegafjárfestingu einkaaðila. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmenn að lesa tölur, ekki bara fyrirsagnir, því að það kemur í ljós að fjárfestingin meðal einkaaðila er að aukast mjög kraftmikið. (Forseti hringir.) Á sama tíma dregur úr henni hjá hinu opinbera og samneyslan minnkar lítillega þannig að heildarfjárfesting vex minna (Forseti hringir.) en hjá einkaaðilum.