140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og var sagt í upphafi um breytingartillögur okkar sjálfstæðismanna ganga þær út á breytta forgangsröðun. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson sagði að það væri ekki hægt að gera betur, það væru ekki til peningar. Hér er verið að leggja 150 millj. kr. til að undirbúa gerð nýs tollkerfis fyrir tollstjóra. Undirbúa — við vitum ekkert hvað kerfið mun kosta á endanum, þetta er undirbúningurinn. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þessi kostnaður sé óumflýjanlegur. Virðulegi forseti. Mér þykir það orð ansi stórt þegar við erum að tala um tollkerfi. Mér finnst útgjöld til heilbrigðismála, til velferðarmála, vera kostnaður sem við getum sannarlega talað um að sé óumflýjanlegur. Með allri virðingu fyrir tollkerfinu er þetta ekki óumflýjanlegur kostnaður.