140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögur varðandi fæðingarorlofið. Það hefur komið fram fyrr í umræðunni að við þurfum að endurbyggja fæðingarorlofið í áföngum aftur, þ.e. að setja þar inn meira fjármagn. Það vill svo til að við erum að loka fjárlögum og reyna að koma af vöxtum og breyta þeim yfir í velferð og þess vegna verðum við að gæta aðhalds.

Þarna er ekki um að ræða neina efnislega breytingu í fjárlagafrumvarpinu á fæðingarorlofinu. Það er enginn niðurskurður í fjárlagafrumvarpinu en við stefnum að því að skila til baka aftur og hækka og koma inn að nýju með nýjum tekjuviðmiðum á árinu 2013. Það hefur legið fyrir í svolítinn tíma og ég treysti á að við náum að vinna sameiginlega áætlun um með hvaða hætti við endurheimtum fæðingarorlofið að fullu.

Það hefur komið í ljós að þær breytingar sem menn áttu von á, að karlar mundu taka fæðingarorlof í minna mæli, hafa í sjálfu sér ekki gengið eftir eins og við héldum, heldur hefur orðið minnkun í heildina hjá öllum hópum (Forseti hringir.) og þess vegna hefur orðið aðhald þarna en ekki vegna breytinga á reglum.