140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[16:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara út í það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Við framsóknarmenn hefðum viljað auka tekjur ríkissjóðs á allt annan hátt en núverandi ríkisstjórn. Við hefðum líka viljað vernda velferðarkerfið, sér í lagi Fæðingarorlofssjóð sem okkur hefur verið hugleikinn lengi og börðumst lengi fyrir og nú er verið að skerða hann um 10%. Fæðingarorlofssjóður er í dag einfaldlega ekki að nýtast sem það tæki til jafnréttis sem hann á að vera. Ég fagna því sérstaklega að velferðarráðherra sé reiðubúinn til að skoða og endurmeta þær reglur sem um hann gilda, en ég vona að farið verði í það fyrr en seinna vegna þess að mér skildist á orðum hans áðan að það ætti að gera á árinu 2013. Ég tel að það þurfi að gera fyrr og ég bið ríkisstjórnina að huga vel að þessum mikilvæga jafnréttissjóði.