140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:35]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að í umræðum í dag hefur heilbrigðiskerfið verið mjög til umfjöllunar og ber þingheimur með ólíkum hætti hag þess fyrir brjósti. Ég tel afar mikilvægt við þessar atkvæðagreiðslur að gera grein fyrir því að í útgjöldum til heilbrigðismála er í heildina ekki verið að skera niður. Og ef verið er að bera saman árin 2006–2012 og við skoðum það sem hlutfall af tekjum er heldur ekki verið að lækka útgjöld, þvert á móti.

Ef við tökum útgjöldin eins og þau voru árið 2006 sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs erum við að fara upp í nánast öllum flokkum hvort sem það er í heilsugæslu, lyfjum, sérfræðilækningum, lyf- og hjálpartækjum og þar að auki bótum almannatrygginga, úr því að eyða 9,5% upp í 13,1% af tekjum. Ég hvet menn til að skoða þetta. Við erum að aðlaga okkur þeim raunveruleika að tekjurnar minnkuðu um 90 milljarða og við erum að borga vexti, 15%, af tekjum. Það er kaldi veruleikinn sem við þurftum að aðlaga okkur og tekist hefur að verja hlutdeild heilbrigðiskerfisins í tekjum ríkisins.