140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í ljósi þess hversu mikill vilji er innan þings til að greiða og bæta úr fangelsismálum landsins hefur verið hálfraunalegt að horfa á hvernig málið hefur unnist í fjárlagagerðinni. Töluverður vandræðagangur var á þeim tillögum sem komu til fjárlaganefndar og slegið úr og í, tillaga ríkisstjórnar var dregin til baka fyrir 2. umr. o.s.frv. Þrátt fyrir það endar málið þannig að lagt er til að hefja hönnun nýs fangelsis á Hólmsheiði.

Aðspurðir hafa meirihlutamenn ekki getað svarað því hvenær úrbótin muni eiga sér stað. Það liggja engin áform fyrir um hvenær hefja á framkvæmdir og því síður hvenær þeim á að ljúka. Ekki liggur heldur fyrir nein kostnaðaráætlun um það hvað verja á háum fjárhæðum til byggingarinnar og eða hver afstaða ríkisstjórnar Íslands (Forseti hringir.) til fjármögnunar verksins er, hvort hún á að koma beint úr ríkissjóði eða vera í svokallaðri leigu- eða einkaframkvæmd. Það svar átti að koma í ágúst en ágúst kemur víst (Forseti hringir.) ekki fyrr en 2012.