140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:11]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni hefur Alþingi, frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram í október, ákveðið að bæta um það bil einum milljarði í heilbrigðismálin. Það hefur líka komið fram áður í umræðunni að þessi aðlögun að raunverulegum tekjum ríkissjóðs með heilbrigðiskerfið hefur verið erfið og sársaukafull. En þarna er sem sagt verið að reyna að stíga síðustu skrefin, að mínu mati, og ég hef kynnt það þannig að við séum að ljúka þessum niðurskurði á næsta ári og fengið þau skilaboð að menn vilji fá að klára þetta núna en ekki bíða með það. Ekki tókst þó að skoða í smáatriðum einstaka stofnanir, m.a. ekki í Fjallabyggð og Höfn í Hornafirði, og aðeins á eftir að skoða Vestmannaeyjar. Að auki höfum við óskað eftir því að fá pott til að vinna með þannig að við getum gripið inn í ef einhverjir hlutir eru að gerast sem menn hafa ekki viljað láta gerast í samræmi við þá skýrslu sem liggur fyrir um þá hagræðingarkröfu sem lögð er fram.

Ég fagna því að þetta kemur hingað inn og mun reyna að halda bæði velferðarnefnd og (Forseti hringir.) fjárlaganefnd upplýstum um það með hvaða hætti þessum peningum verður ráðstafað.