140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í skýrslu sem fylgdi með fjárlagafrumvarpinu, sem lagt var fram í haust, kom fram að aukning hefði verið til velferðarmála. Við höfum oft fengið að heyra það í ræðum að raunveruleg aukning sé til velferðarmála jafnvel þótt enginn finni þess stað nokkurs staðar á landinu. Ástæðan er þessi. Það er aukning í Atvinnuleysistryggingasjóð og hann fellur undir velferðarmál. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Nei, þetta er rétt, þess sér stað í skýrslunni sem fylgdi fjárlagafrumvarpinu. Ég skal lesa það orðrétt fyrir hæstv. velferðarráðherra á eftir.

Virðulegi forseti. Hún gengur einfaldlega ekki sú staða sem er í velferðarmálum. Það gengur ekki að verið sé að leggja fram einhverjar tillögur sem er svo breytt á Alþingi og heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið viti ekki í hvorn fótinn þær eiga að stíga. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Stofnanirnar bjuggust við að þetta yrði bætt, menn tóku ekki mark á því frumvarpi sem var lagt fram í haust.